Fjölskylduhátíðin Fjör í Flóa fór fram um helgina þar sem boðið var upp á fjölbreytta dagskrá, m.a. dráttarvélasýningu við Þingborg og svo var opið hús á ferðaþjónustubænum Lambastöðum og á kjúklingabúinu Vor á Vatnsenda þar sem um 400 manns mættu til að kynna sér starfsemi búsins, gæða sér á veitingum úr kjúklingum og skoða meðal annars dagsgamla unga.
„Maður hugsar um þá með því að gefa þeim nóg að borða og gefa þeim vatn,“ segir Gréta Sóley Ingvarsdóttir, 8 ára á Vatnsenda.
“Við erum mestmegnis að fylgjast með kjúklingnum, við þurfum voðalega lítið að gera sjálf af því að þetta er allt svo sjálfvirkt. Þeir fá vatnið sjálfir og kornið fer bara í gegnum snigil og það er vigt, sem vigtar þá,“ segir Þórunn Eva Ingvarsdóttir, 16 ára, sem býr líka á Vatnsenda.

Það eru þau Eydís Rós Eyglóardóttir og Ingvar Guðni Ingimundarson, sem eru kjúklingabændurnir á bænum.
„Við erum með allt að 40 þúsund fugla í fimm eldishólfum í fjórum húsum. Þetta er mjög skemmtilegt en öðruvísi því það eru allskonar reglur í kringum búskapinn eins og sóttvarnir, maður hleypur ekkert inn einn tveir og bingó inn í húsin“, segir Eydís.
Ingvar tekur undir það að kjúklingabúskapurinn sé skemmtilegur. „Já, mjög skemmtilegur“.
Þrátt fyrir að ungarnir séu mjög sætir og mikið krútt þegar þeir eru litlir þá vaxa þeir mjög hratt og lífið þeirra er mjög, mjög stutt.
„Já, það er mjög áhyggjulaust líf. Það er bara sofa, drekka, borða og leika sér,“ segir Eydís.

Framkvæmdastjóri Bændasamtakanna er ánægður með framtak fjölskyldunnar á Vatnsenda að leyfa fólki að koma og skoða búið hjá þeim.
„Þetta er bara ótrúlega flott og til fyrirmyndar og mér finnst að bændur mættu gera meira af þessu, bjóða heim, sýna hvað þeir eru að gera, framleiða og hvernig starfseminni er háttað fyrir okkur, sem erum á rúntinum um sveitirnar“, segir Vigdís Häsler.

