„Þetta er spennandi gluggi, alltaf gaman að koma heim á sumrin. Það er gott veður og við eigum mjög góða reynslu af þessum júníleikjum og góðar minningar. Það er stefnan klárlega að búa til nýjar flottar minningar af sumarleikjum á Laugardalsvelli.“
Það er þegar orðið uppselt á seinni leik Íslands í þessum glugga, gegn Portúgal 20. júní, en enn eru um 2000 óseldir miðar á leikinn gegn Slóvakíu í dag. Alfreð tók undir að stuðningurinn úr stúkunni væri mikilvægur en það væri undir liðinu komið að trekkja fólk á völlinn
„Ekki spurning. Við viljum náttúrulega búa til þannig stemmingu í kringum liðið að það fari að verða aftur uppselt á hvern einasta leik. Það er líka bara undir okkur komið að fara að vinna leiki og sýna að við séum lið sem fólk vill horfa á.“
„Við getum ekkert kvartað yfir því að það sé ekki orðið uppselt en vonandi verður uppselt því við þurfum á stuðningnum að halda. Þetta er gríðarlega mikilvægur leikur á móti Slóvakíu þar sem línur geta skýrst aðeins í riðlinum. Við vitum að við þurfum að vinna heimaleikina okkar, allavega fjóra af fimm í þessari undankeppni ef við ætlum að eiga séns að fara áfram.“
Ísland er með þrjú stig í J-riðli eftir fyrstu tvo leikina, og þarf að bæta sigrum í sarpinn ef liðið ætlar ekki að missa af lestinni. Alfreð sagði að liðið ætli að sækja til sigurs í dag.
„Við verðum að ná í úrslit og förum auðvitað í leikinn til að vinna hann. Jafntefli, þá erum við alveg ennþá á lífi, en þá er þetta ekki komið í okkar hendur. En ef við vinnum þá erum við bara komnir á par við hin liðin og stýrum okkar eigin leið í þessum riðli og það er það sem við viljum gera.“