„Við munum bíða hvalveiðiskipana ef Kristján Loftsson ákveður að senda þau út úr mynni Hvalfjarðar,“ segir Maclean í samtali við Vísi; spurður hvar skipið væri statt. Hann vildi ekki meina að það væri neitt leyndarmál, en eins og fram kom í frétt Vísis frá í morgun þá hafði verið slökkt á staðsetningarbúnaði skipsins.
Að sögn MacLean hafa þeir heimildir fyrir því að Kristján Loftsson, eigandi Hvals hf. „síðasta hvalveiðifangara á Íslandi,“ sé nú að setja sérstakan rafbúnað í skutla sína. Þetta hafi menn Kristjáns verið að gera í dag en MacLean sendir myndir sem eiga að staðfesta það. Þar má sjá menn með rafmagnskapla við Reykjavíkurhöfn þar sem hvalveiðiskipin eru við festar.

„Svo virðist sem þetta séu viðbrögð við skýrslu MAST,“ segir Lockhart. En vitnar í skýrsluna þar sem segir notkun rafmagns við aflífun tryggi ekki skjótan dauða.
„Ekki aðeins munu hvalirnir verða fyrir áfalli og líða fyrir innvortis blæðingar af völdum sprengiskutla, þeir fá einnig raflost af völdum háspennu, áður en þeir drepast. Ef þetta er ekki inntak grimmdar, þá veit ég ekki hvað það er,“ segir Locky MacLean.
Spurður hvort það væri ekki áhyggjuefni að enn væri útistandandi handtökuskipun á hendur Paul Watson á Íslandi sagði MacLean að Watson vildi skila eftirfarandi til blaðamanns.
„Ég kom til Íslands 1988 og krafðist þess að ég yrði handtekinn. Yfirvöld neituðu og ég hef ekki heyrt frá þeim síðan. Tilgangur ferðar okkar og markmið er einföld, að vernda og verja hvali frá ólöglegum veiðum,“ segir Paul Watson.
Rætt verður við Paul Watson í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.