Fótbolti

Hákon Arnar á lista yfir efnilegustu leikmenn Evrópu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson er einn af hundrað efnilegustu leikmönnum Evrópu.
Hákon Arnar Haraldsson er einn af hundrað efnilegustu leikmönnum Evrópu. Vísir/Hulda Margrét

Íslenski landsliðsmaðurinn Hákon Arnar Haraldsson, leikmaður FCK í Danmörku, er meðal hundrað leikmanna sem tilnefndir eru sem efnilegustu leikmenn Evrópu.

Frá árinu 2003 hefur efnilegasti leikmaður Evrópu verið heiðraður með verðlaunum sem kallast „Golden boy award“ og í ár eigum við íslendingar einn leikmann á lista yfir þá hundrað leikmenn sem koma til greina. Leikmenn á borð við Erling Braut Haaland og Kylian Mbappe hafa unnið verðlaunin, ásamt Gavi sem hlaut nafnbótina í fyrra.

Knattspyrnumiðillinn 90min.com tók saman listann yfir þá hundrað sem koma til greina í kjörinu, en það eru íþróttablaðamenn sem kjósa um sigurvegara. Hver blaðamaður velur þrjá leikmenn sem hann telur að eigi verðlaunin skilið þar sem gefin eru tíu, sjö og fimm stig. Leikmenn sem eru 21 árs og yngri koma til greina.

Hundrað manna listinn verður svo skorinn niður. Fyrst niður í 80 manns, svo 60, síðan 40 og að lokum munu 20 leikmenn berjast um nafnbótina.

Miðað við listann eins og hann er settur fram á heimasíðu 90min.com situr Hákon Arnar í 50. sæti sem verður að teljast ansi gott, sérstaklega ef skoðuð eru nöfnin sem tilnefnd eru.

Jamal Musiala, leikmaður Bayern München, trónir á toppi listans eins og er og á eftir honum kemur Jude Bellingham, sem nýverið gekk í raðir Real Madrid. Þá eru einnig leikmenn á borð við Gavi, Alejandro Garnacho og Xavi Simmons á lista. Listann í heild sinni má sjá með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×