Leikurinn mikilvægi var í beinni útsendingu á Youtube-rás IHF og er hægt að horfa á leikinn aftur í spilaranum hér fyrir neðan.
Íslensku strákarnir höfðu unnið alla fjóra leiki sína til þessa og ljóst var sigur eða jafntefli gegn Egyptalandi í dag myndi skila strákunum efsta sæti milliriðils IV. Þá var einnig ljóst að allt að fjögurra marka tap myndi koma liðinu í átta liða úrslit.
Íslensku strákarnir byrjuðu leikinn nokkuð vel og náðu fljótlega forystunni. æIslenska liðið hélt Egyptum í skefjum út fyrri hálfleikinn og leiddi með sex mörkum þegar liðin gengu til búningsherbergja, staðan 19-13.
Íslenska liðið virtist svo vera að gera út um leikinn í síðari hálfleik og lengst af leit út fyrir að Egyptar ættu engin svör við leik íslensku strákana. Ísland náði mest tíu marka forskoti í stöðunni 25-15 þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og útlitið gott fyrir íslensku strákana.
Þá tók hins vegar hinn alræmdi slæmi kafli við og Egyptar skoruðu hvrt markið á fætur öðru. Egyptar skoruðu ellefu af næstu tólf mörkum leiksins og jöfnuðu metin í 26-26 þegar um þrjár mínútur voru til leiksloka.
Enn var jafnt á síðustu andartökum leiksins í stöðunni 28-28. Íslenska liðið fékk þá vítakast þegar um tvær sekúndur voru til leiksloka, Benedikt Gunnar Óskarsson steig á punktinn og tryggði íslenska liðinu dramatískan sigur, 29-28.
Ísland endar því í efsta sæti milliriðils IV með fullt hús stiga og er á leið í átta liða úrslit þar sem liðið mætir Portúgal. Tap Egypta þýðir hins vegar að þeir eru úr leik og Serbar fara í átta liða úrslit þar sem Færeyingar verða andstæðingar þeirra.