Enski boltinn

Rifja upp tólf ára Twitter færslu Van Nistelrooy: Hann vissi þetta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruud van Nistelrooy og Heung-Min Son á æfingu hjá Hamburger SV í lok júlí 2010.
Ruud van Nistelrooy og Heung-Min Son á æfingu hjá Hamburger SV í lok júlí 2010. Getty/Alex Grimm

Í aprílmánuði fyrir tólf árum síðan þá var Ruud van Nistelrooy leikmaður þýska liðsins Hamburger SV og á lokakafla ferilsins síns þar sem hann hafði áður farið á kostum með bæði Manchester United og Real Madrid.

Van Nistelrooy var þarna orðinn 35 ára gamll og kláraði sama ár landsliðsferil sinn með Hollandi.

Með honum í liði Hamburger SV var hins vegar ungur strákur að nafni Heung-Min Son. Son var þarna aðeins nítján ára gamall en hafði komið til Hamburger frá Suður Kóreu þremur árum fyrr. Son var nýkominn í aðallið félagsins og fékk því að æfa með Van Nistelrooy.

Van Nistelrooy var það hrifinn af stráknum að hann spáði stráknum mikilli velgengni í framtíðinni og ákvað að skella á hann hrósi á Twitter síðu sinni. Hann vakti þar athygli á liðsfélaga sínum. „…“Liðsfélagi minn Heung-Min Son hefur mikla hæfileika.  Hann er bara átján ára gamall. Fylgist með honum.  Klassaleikmaður,“ skrifaði Van Nistelrooy.

Það er óhætt að segja að Van Nistelrooy hafi þarna séð framtíðina fyrir sér og hann vissi strax þarna að Son væri alvöru leikmaður.

Son var tvö ár í viðbót hjá Hamburger SV og svo önnur tvö hjá Bayer Leverkusen. Hann fór þaðan til Tottenham Hotspur árið 2015 þar sem hann hefur átta frábæran feril.

Son hefur skorað 103 mörk í 268 leikjum í ensku úrvalsdeildinni en Van Nistelrooy var sjálfur með 95 mörk í 150 leikjum með Manchester United frá 2001 til 2006.

Son er einnig þriðji markahæsti landsliðsmaður Suður-Kóreu frá upphafi með 37 mörk en á reyndar enn þrettán mörk í að ná öðru sætinu og 21 mark á eftir þeim markahæsta sem er Cha Bum-kun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×