Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur í Bestu deild karla í fótbolta, er uppalinn KR-ingur og lék á sínum tíma 63 leiki með félaginu í efstu deild. Hann hefur ekki þjálfað KR en oft þjálfað á móti sínu gamla félagi.
Lærisveinar Sigurðar í Keflavík mæta í Vesturbæinn í kvöld þegar liðin mætast í þrettándu umferð Bestu deildar karla og verður leikurinn sýndur beint á Stöð 2 Sport. Leikurinn hefst klukkan 19.15.
Sigurður Ragnar hefur stýrt bæði ÍBV og Keflavík í efstu deild karla og þetta verður níunda viðureign hans á móti KR í deild eða bikarkeppni.
Í þessum sjö deildarleikjum hafa lið Sigurðar aðeins náð í samtals tvö stig af 21 mögulegu og markatalan er sjö mörk í mínus (5-12). Eini bikarleikurinn tapaðsti síðan með þriggja marka mun á heimavelli.
Í fimm leikjum sem Sigurður Ragnar hefur verið þjálfari keflavíkurliðsins á móti KR þá hafa Keflvíkingar ekki náð að skora eitt einasta mark á 450 mínútum. KR hefur náð í 13 stig í þessum fimm leikum og markatalan er þeim í hag eða 6-0.
Liðin mættust í apríl síðastliðinn í Reykjanesbæ og þar vann KR 2-0 sigur.
Nú er að sjá hvort að það sé komið að fyrsta sigri Sigurðar Ragnars á móti uppeldisfélaginu sínu eða hvort að hann þurfi að bíða enn lengur eftir honum.
Keflavík er á botni deildarinnar og þarf nauðsynlega á stigum að halda. Liðið hefur ekki bara beðið lengi eftir sigri á KR því síðasti deildarsigurliðsins kom í fyrstu umferðinni í sumar í leik á móti Fylki sem fór fram 10 apríl. Síðan hefur Keflavík leikið ellefu leiki í röð án sigurs.
KR-liðið hefur á móti rifið sig í gang eftir fimm deildartöp i röð í apríl og maí. KR-ingar hafa náð í ellefu stig út úr síðustu fimm deildarleikjum sínum.
- Leikir liða Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar á móti KR:
- Sem þjálfari ÍBV
- Deild 2014: 2-3 tap á heimavelli
- Bikar 2014: 2-5 tap á heimavelli
- Deild 2014: 3-3 jafntefli á útivelli
- Sem þjálfari Keflavíkur
- Deild 2021: 0-1 tap á útivelli
- Deild 2021: 0-2 tap á heimavelli
- Deild 2022: 0-1 tap á útivelli
- Deild 2022: 0-0 jafntefli á heimavelli
- Deild 2023: 0-2 tap á heimavelli