Fundarefni er brot Íslandsbanka við sölumeðferð eignarhluta ríkisins í bankanum. Björk Sigurgísladóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands og Gunnar Þór Pétursson, nefndarmaður í fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands sátu fyrir svörum.
„Það hefur örlað á því í umræðunni um þetta mál að fjármálakerfið í heild sé undir og ýjað að því að mögulega sé sama staða uppi annars staðar eða í annarri starfsemi,“ sagði Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðguleikasviðs Seðlabanka Íslands.
„Stærsti hluti starfsemi þessara banka lýtur að viðskiptabankastarfsemi og það eru engar vísbendingar um að þar sé að finna sambærilega annmarka líkt og getið er um í þessari sátt,“ sagði Gunnar og sagði mikilvægt að geta þess að hægt væri að hafa fullt traust á fjármálakerfinu þrátt fyrir Íslandsbankamálið.
Ekki sátt heldur játning
Þá voru fulltrúar Seðlabankans meðal annars spurðir af því af Ásthildi Lóu Þórsdóttur, þingmanni Flokks fólksins, hvort að þeim fyndist það eðlilegt að starfsmenn bankans væru algjörlega stikkfrí í málinu og hvort hægt hefði verið að beita persónulegum sektargreiðslum gegn þeim. Spurði hún einnig hvers vegna sáttaleið hefði verið farin.
„Íslandsbanki óskar sjálfur eftir því að ljúka málinu með þessum hætti. Aðili viðurkennir að hann hafi brotið af sér og ræðst í úrbætur. Bæði hefur bankinn óskað eftir sáttinni, gengst við brotum og hefur þegar hafið úrbætur,“ svaraði Björk Sigurgísladóttir, varaseðlabankastjóri Fjármálaeftirlits. Hún segir bankann eiga eftir að skila úttekt á úrbótum sínum í haust sem eftirlit verði með og tryggt að verði fullnægjandi.
Gunnar Þór Pétursson, nefndarmaður í fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands, segir að Seðlabankinn hafi ekki úrræði til þess að gera starfsmenn bankans persónulega ábyrga fyrir greiðslu sektarinnar. Þá segir Gunnar Jakobsson að það lýsi málinu ekki endilega nægilega vel að tala um sátt.
„Það er að þvælast fyrir okkur þegar við tölum um sátt að það séu allir sáttir. Þetta snýst um það að það er játning og við ljúkum málinu með játningu og þeim atvikalýsingum á þeim brotum sem hafa verið framin. Mitt mat er að það sé heppilegt að ljúka málum með játningu í stað þess að fara með mál fyrri dóm.“