Ísland er komið í undanúrslit eftir að hafa unnið alla sex leiki sína á mótinu. Í undanúrslitunum bíða Ungverjar Íslendinga. Leikurinn hefst klukkan 13:30 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.
Stöðugt hefur fjölgað í hópi Íslendinga sem fylgja liðinu eftir. Þar á meðal eru A-landsliðsmennirnir Elliði Snær Viðarsson og Sigvaldi Guðjónsson. Þeir eiga báðir bræður í U-21 árs liðinu; Arnór og Símon Michael.
Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Leipzig, var einnig mættur ásamt konu sinni, Heiðu Erlingsdóttur. Sonur þeirra, Andri Már, er marka- og stoðsendingahæsti leikmaður Íslands á HM.
Óskar Bjarni Óskarsson, nýráðinn þjálfari Vals, var einnig mættur en hvíti hatturinn góði sem hann hefur jafnan verið með á leikjum Íslands varð eftir. Vonandi kemur það ekki að sök gegn Ungverjunum á eftir.
Það sem gerir þennan sigur hjá U21 enn merkilegri í dag er að Óskar Bjarni Óskarsson var ekki í stúkunni en engar áhyggjur hann verður mættur með hvíta hattinn í stúkuna í Berlín á laugardaginn! pic.twitter.com/torK0C3kyN
— Arnar Daði (@arnardadi) June 29, 2023
Sem fyrr sagði hefst leikur Íslands og Ungverjalands klukkan 13:30. Klukkan 16:00 eigast Þýskaland og Serbía svo við í seinni undanúrslitaleiknum.


