Enski boltinn

Mount staðfestir brottför frá Chelsea í dramatísku myndbandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mason Mount hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Chelsea.
Mason Mount hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Chelsea. getty/Chris Lee

Enski landsliðsmaðurinn Mason Mount hefur staðfest að hann sé á leið til Manchester United frá Chelsea.

Mount birti myndband á Instagram í gær þar sem hann sagðist vera að yfirgefa Chelsea sem hann hefur verið hjá frá því hann var sex ára.

„Ég hef tekið ákvörðun um að yfirgefa Chelsea,“ sagði Mount í myndbandinu þar sem hann ávarpaði stuðningsmenn Chelsea.

„Mér finnst að þið eigið meira skilið en skriflega yfirlýsingu svo ég vildi segja ykkur hversu þakklátur ég hef verið fyrir stuðning ykkar undanfarin átján ár. Ég veit að einhver ykkar verða ekki sátt með ákvörðun mína en þetta er rétt skref fyrir mig á þessum tíma á ferlinum.“

Talið er að United muni borga sextíu milljónir punda fyrir Mount sem á eitt ár eftir af samningi sínum við Chelsea. Félagið hafnaði fyrstu þremur tilboðum United í enska landsliðsmanninn áður en þau náðu saman.

Mount, sem er 24 ára, lék tæplega tvö hundruð leiki fyrir Chelsea og vann Meistaradeild Evrópu með liðinu fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×