Liðin eru að berjast á sitt hvorum enda töflunnar þar sem Fjölnir situr í öðru sæti og Leiknir því tíunda.
Orri Þórhallsson kom heimamönnum í Fjölni yfir strax á 14. mínútu áður en Máni Austmann Hilmarsson fékk gullið tækifæri til að tvöfalda forystu liðsins af vítapunktinum en misnotaði spyrnuna.
Axel Freyr Harðarson sá þó til þess að Fjölnismenn komust í 2-0 með marki á 64. mínútu, en Sindri Björnsson minnkaði muninn fyrir gestina tæpum tíu mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma.
Heimamenn voru þó ekki lengi að svara því Hákon Ingi Jónsson skoraði þriðja mark Fjölnis úr vítaspyrnu stuttu síðar áður en Daníel Ingvar Ingvarsson gerði endanlega út um leikinn á fjórðu mínútu uppbótartíma.
Niðurstaðan því 3-1 sigur Fjölnis sem situr enn í öðru sæti deildarinnar, nú með 21 stig eftir tíu leiki. Leiknir situr hins vegar í næstneðsta sæti með sjö stig.