BT í Danmörku greinir frá því að nánast allt í kringum félagaskiptin sé klappað og klárt, aðeins þurfi að hnýta nokkra lausa enda. Hákon þarf meðal annars að standast læknisskoðun hjá Lille sem hann fer í seinna í dag.
Samkvæmt upplýsingum BT greiðir Lille FCK sautján milljónir evra fyrir Hákon. Það samsvarar 2,5 milljörðum íslenskra króna. Hluti af kaupverðinu rennur til ÍA, uppeldisfélags Hákons.
Hinn tvítugi Hákon varð danskur meistari með FCK á síðasta tímabili. Hann gekk í raðir liðsins frá ÍA fyrir fjórum árum.
Hákon verður fyrsti Íslendingurinn til að leika með Lille. Liðið endaði í 5. sæti frönsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Lille hefur fjórum sinnum orðið franskur meistari, síðast fyrir tveimur árum.