Ef Trump segir satt er þetta í annað sinn sem Smith tilkynnir honum um að hann forsetinn fyrrverandi sé með stöðu sakbornings í máli sem rannsakandinn er að rannsaka. Það fyrra tengist meðferð Trumps á leynilegum skjölum sem hann tók með sér úr Hvíta húsinu.
Sjá einnig: Vill fresta réttarhöldum fram yfir kosningar
„Hinn geðbilaði Jack Smith, saksóknarinn hjá Dómsmálaráðuneyti Bidens, sendi bréf (aftur, á sunnudagskvöldi!) og lýsti því yfir að ég væri SKOTMARK rannsóknar ákærudómstóls vegna 6. janúar [Þegar stuðningsmenn Trumps ruddu sér leið inn í þinghús Bandaríkjanna með því markmiði að stöðva formlega staðfestingu úrslita forsetakosninganna 2020] og gaf hann mér eingöngu fjóra daga til að mæta fyrir ákærudómstólinn, sem þýðir nánast alltaf handtöku og ákæru,“ skrifaði Trump á Truth Social, sinn eigin samfélagsmiðil.
Samkvæmt frétt New York Times er Trump líklegur til að neita að mæta fyrir ákærudómstólinn.
Ákærudómstóll er fyrirbæri vestanhafs þar sem kviðdómendur eru fengnir til að fara yfir vitnisburð og gögn í ákveðnum málum og kanna hvort þeim þyki tilefni til að leggja fram ákærur vegna meintra brota.
Minnst tveir slíkir hafa verið að skoða mál sem tengjast Trump og áðurnefndri viðleitni hans til að halda völdum eftir að hann tapaði gegn Joe Biden. Jared Kushner, tengdasonur Trumps, bar vitni fyrir einum ákærudómstól í síðasta mánuði. Þá hefur Rudy Giuliani, fyrrverandi einkalögmaður Trumps, einnig rætt við saksóknara.
Trump hefur lengi logið því að hann hafi unnið kosningarnar og að umfangsmikið kosningasvindl hafi kostað hann sigur. Hann stendur frammi fyrir öðrum ákærum og lögsókn vegna tilrauna sinna til að snúa kosningunum, sem náðu hámarki með árásinni á þinghúsið þann 6. janúar 2021.
Hann hefur þegar verið ákærður í tveimur málum. Einu sinni vegna skjalanna leynilegu og í hinu tilfellinu af saksóknara á Manhattan sem sakar Trump um fjársvik varðandi þagnargreiðslur til klámleikkonu og leikstjóra, sem hann hélt við á árum áður, í aðdraganda forsetakosninganna 2016.
Forsetinn fyrrverandi stendur einnig frammi fyrir réttarhöldum í New York í október sem tengjast áskönunum umdæmasaksóknara um að Trump hafi framið svik. Þar að auki gæti Trump verið ákærður vegna viðleitni hans til að breyta niðurstöðum forsetakosninganna í Georgíu árið 2020.