Enski boltinn

Jonny Evans orðinn leik­maður Manchester United á nýjan leik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jonny Evans á æfingu með United í dag.
Jonny Evans á æfingu með United í dag. Vísir/Getty

Þau óvæntu tíðindi bárust í dag að Jonny Evans hefði skrifað undir samning við Manchester United. Evans hafði verið félagslaus eftir að hafa yfirgefið Leicester City í lok síðasta tímabils.

Hinn 35 ára gamli Jonny Evans er uppalinn í akademíu Manchester United og lék 198 leiki fyrir félagið áður en hann yfirgaf Rauðu djöflana árið 2015. Hann hefur tilheyrt Leicester City síðustu árin en varð samningslaus að loknu síðasta tímabili.

Í dag bárust síðan þær fréttir að Evans hefði skrifað undir skammtímasamning við United. Hann mun ferðast með liðinu til Edinborgar þar sem liðið mætir Lyon í æfingaleik miðvikudag og sömuleiðis vera með liðinu í öðrum leik gegn Wrexham í San Diego í næstu viku.

Evans hafði verið að æfa með unglingaliði United á meðan hann var að hugsa sín næstu skref. Erik Ten Hag og þjálfarateymi United hreifst af Evans á æfingum og bauð honum samning.

Evans hefur leikið 102 landsleiki fyrir Norður-Írland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×