Enski boltinn

Fór af velli með samfallið lunga þegar Man. United tapaði 3-1 á móti Wrexham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Mullin, aðalmarkaskorari Wrexham, fékk slæmt högg og endaði leikinn upp á sjúkrahúsi.
Paul Mullin, aðalmarkaskorari Wrexham, fékk slæmt högg og endaði leikinn upp á sjúkrahúsi. Getty/Matthew Ashton

Manchester United tapaði 3-1 á móti Wrexham í æfingarleik í Bandaríkjunum í nótt sem eru úrslit sem vissulega stinga í augun.

Wrexham er nýkomið upp í ensku D-deildina og hefur verið í stórsókn síðan að Hollywood eigendurnir Ryan Reynolds og Rob McElhenney eignuðust félagið.

Það fylgir þó sögunni að lið Manchester United í nótt var skipað leikmönnum 21 árs og yngri. Eldri og reyndari leikmenn hópsins höfðu farið áfram á undan til Texas þar sem æfingaferðin heldur áfram með leik á móti Real Madrid á morgun.

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri United, horfði á leikinn en það ólíklegt að margir ungir leikmenn hafi náð að sanna sig fyrir honum í nótt. Reynsluboltinn Jonny Evans reyndi að hjálpa til en árangurs. Ten Hag sagði við MUTV að hann hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum með leikinn en að ungu leikmennirnir þyrftu að læra af þessu.

Paul Mullin, leikmaður Wrexham, fór af velli með samfallið lunga eftir samstuð við Nathan Bishop, markvörð Manchester United. Mullin skoraði 46 mörk í öllum keppnum á síðustu leiktíð.

Ryan Reynolds, þekktari Hollywood eigandi Wrexham, gat ekki mætt á leikinn en þar var aftur á móti kollegi hans Rob McElhenney.

Leikurinn fór fram á Snapdragon Stadium í Kaliforníu og var uppselt á leikinn. 34.248 mættu á leikinn.

Elliot Lee, Aaron Hayden og Sam Dalby skoruðu mörk Wrexham en Marc Jurado minnkaði muninn undir lok fyrri hálfleiks. Hinn átján ára gamli Dan Gore fékk síðan rautt spjald í byrjun síðari hálfleiks og lék United því manni færri langstærsta hluta hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×