Þetta segir í hugleiðingum veðurfræðings um veðurhorfur á landinu á vef Veðurstofunnar.
Veðurstofan spáir austan- og norðaustanátt, víða á bilinu fimm til þrettán metrar á sekúndu, á landinu. Hvassast verði norðvestan til og við suðausturströndina og þokubakkar við norður- og austurströndina í nótt og á morgun.
Hiti nái frá sjö stigum við norðausturströndina upp í átján stig sunnan- og suðvestanlands. Veðrið verði síðan svipað á morgun.
Lægð suður af landinu
Lægðabraut suður af landinu veldur þessum norðaustlægu áttum samkvæmt Veðurstofunni og er „ein myndarleg lægð“ núna djúpt suður af Reykjanesi.
Þrátt fyrir það verður vindur á suðvesturhorninu hægur og því má reikna með að gosmóða verði á sveimi um Reykjanesskagann.
Í spá veðurvaktar um gasdreifingu segir að gasmengun berist til vesturs og suðvesturs í dag og gæti orðið vart við hana í Grindavík. Eftir hádegi í dag er útlit fyrir hæga breytilega átt á svæðinu og gæti mengunin dreifst víðar um Reykjanesskagann
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag: Norðaustlæg eða breytileg átt 5-13 m/s, hvassast norðvestan til og við suðausturströndina. Skýjað og lítilsháttar væta norðan- og austanlands og þokubakkar við ströndina. Hiti sjö til þrettán stig. Bjartviðri í suðvesturfjórðungi landsins með hita að nítján stigum.
Á laugardag, sunnudag, mánudag, þriðjudag og miðvikudag: Hæg breytileg átt. Skýjað með köflum á landinu og skúrir á stöku stað síðdegis. Hiti víða tólf til sautján stig að deginum.