Enski boltinn

Stutt í ákvörðun Man. Utd um Greenwood

Sindri Sverrisson skrifar
Mason Greenwood var meðal annars ákærður fyrir líkamsárás og tilraun til nauðgunar.
Mason Greenwood var meðal annars ákærður fyrir líkamsárás og tilraun til nauðgunar. Getty/Paul Currie

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United munu tilkynna ákvörðun sína um framtíð Masons Greenwood áður en ný leiktíð liðsins hefst með leik við Wolves eftir tvær vikur.

Frá þessu greina enskir fjölmiðlar í dag en óvissa hefur ríkt um það í eitt og hálft ár hvort að Greenwood spili á nýjan leik fyrir United eða ekki, þó að hann sé samningsbundinn félaginu til 2025.

Greenwood spilaði síðast fyrir United í janúar 2022, í 1-0 sigri gegn West Ham, en var handtekinn í sama mánuði.

Þessi 21 árs gamli Englendingur var svo ákærður í október í fyrra, meðal annars vegna tilraunar til nauðgunar og vegna líkamsárásar.

Allar ákærur voru hins vegar felldar niður í febrúar síðastliðnum eftir að lykilvitni dró sig til hlés og ný sönnunargögn komu fram, þar sem ekki þótti þá lengur raunhæfur möguleiki á sakfellingu.

Greenwood hefur ekki mætt á æfingar hjá United frá því að málið kom upp. Erik ten Hag, knattspyrnustjóri United, sagði við fjölmiðla í Bandaríkjaferð United að hann væri búinn að segja sína skoðun á málinu og að nú þyrfti félagið að taka ákvörðun.

Sú ákvörðun ætti að liggja fyrir á næstu dögum, eða í það minnsta áður en að United mætir Wolves 14. ágúst, og mun byggja á rannsókn félagsins sem ráðist var í eftir að ákærur gegn Greenwood voru felldar niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×