Samkvæmt Varnarmálaráðuneyti Rússlands voru tveir drónar skotnir niður fyrir utan Moskvu í morgun en minnst einn dróni hæfði háhýsi í Moskvu sem hýsir skrifstofur nokkurra ráðuneyta. Rússar segja að búið hafi verið að trufla innra kerfi drónans og hann hafi brotlent á byggingunni.
Engar upplýsingar liggja fyrir um hvort einhver lét lífið eða særðist, samkvæmt frétt RIA fréttaveitunnar, sem er í eigu rússneska ríkisins.
Þetta er í minnst fjórða sinn á rúmri viku sem árásir af þessu tagi eru gerðar í Moskvu, samkvæmt New York Times.
Sambærileg árás var gerð á sunnudaginn en þá segjast Rússar hafa skotið niður einn dróna og að einn til viðbótar hafi brotlent. Þá sagði Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, að stríðið í Úkraínu væri að færast til Rússlands.
Sjá einnig: „Stríðið færist til Rússlands“
Ráðamenn í Úkraínu viðurkenna sjaldan sem aldrei árásir sem þessar. New York Times segir þó að minnst þrjár mismunandi tegundir úkraínskra dróna hafi verið notaðar til árása í Rússlandi og þar á meðal í Moskvu. Blaðamenn miðilsins greindu myndefni frá Úkraínu en drónar sem sjást þar eru taldir geta flogið hundruð kílómetra.
Viðtöl blaðamanna benda einnig til þess að Úkraínumenn séu að auka framleiðslu á þessum drónum með því markmiði að gera tíðari árásir í Rússlandi.
Minnst tólf borgara eru sagðir hafa fallið í árásum Rússa á Úkraínu í gær og fleiri en hundrað munu hafa særst.