Elín Auðbjörg Pétursdóttir vakti athygli á því í gærkvöldi í Facebook-hópnum Vegan Ísland að vegan borgararnir á Aktu taktu væru ekki vegan þar sem þeir innihéldu egg. Samt væru þeir seldir sem vegan borgarar.

Færslan vakti þó nokkur viðbrögð meðal meðlima Vegan Íslands og benti fólk sérstaklega á að fólk með ofnæmi fyrir eggjum væri í hættu þar sem það pantaði sér gjarnan eggjalausa vegan borgara.

Vitlaus sending
María Rún Hafliðadóttir, framkvæmdastjóri Gleðipinna, svaraði færslu Elínar og sagði að vitlaus sending hefði valdið klúðrinu en að búið væri að bæta úr því.
„Við fengum vitlausa sendingu í síðustu viku,“ sagði María Rún í viðtali við Vísi um málið.

„Þessu var bara kippt út um leið. Þetta fór ekki einu sinni á alla staðina. Þetta var á Skúlagötu og í Stekkjarbakka,“ sagði hún
„Þetta eru samt grænmetisborgarar. Það stendur á þessu vegetarian á pakkningunni. Þetta var vitlaus afhending og starfsmaðurinn okkar hefur bara séð að þetta væri grænmetis.“
María segir að Aktu taktu hafi fengið ábendingu frá viðskiptavini um að borgararnir væru ekki vegan. „Þá fórum við strax í að fá aðra sendingu og henda út því sem var,“ sagði hún.
„Þetta var því nýkomið inn og strax farið út. Og nýja sendingin er komin.“