Sky Sports telur nánast öruggt að félagsskipti Neymar til Al-Hilal gangi í gegn á næstu 48 klukkustundum en hann er þá næsta stórstjarnan til þess að færa sig um set úr Evrópuboltanum yfir til sádi-arabísku deildarinnar.
Kaupverð Al-Hilal á kappanum er talið vera því sem nemur rúmum 86 milljónum punda, töluvert lægri upphæð en sú sem Paris Saint-Germain greiddi fyrir leikmanninn er hann gekk til liðs við félagið frá Barcelona árið 2017.
Þá borgaði PSG því sem nemur 200 milljónum punda til þess að gera Neymar að leikmanni sínum, metupphæð sem hefur verið greidd fyrir leikmann í knattspyrnuheiminum.
Neymar er 31 árs gamall og ef því sem kemst næst ekki í plönum nýja knattspyrnustjóra félagsins, Luis Enrique.
Neymar hlaut knattspyrnulegt uppeldi í heimalandi sínu Brasilíu hjá Santos en sumarið 2013 var hann keyptur til spænska stórveldisins Barcelona þar sem að hann spilaði 186 leiki með aðalliði félagsins, skoraði 105 mörk og gaf 76 stoðsendingar.
Hann fór svo, líkt og fyrr segir, til Paris Saint-Germain og hefur þar spilað 173 leiki, skorað 118 mörk og gefið 77 stoðsendingar.
Þá á hann að baki 124 leiki fyrir brasilíska landsliðið og hefur í þeim leikjum skorað 77 mörk.