Hooper dæmdi viðureign Manchester United og Wolves sem fram fór í gær og Salisbury og West stjórnuði VAR-herberginu. Leiknum lauk með 1-0 sigri United, en Úlfarnir hefðu að öllum líkindum átt að fá vítaspyrnu í uppbótartíma þegar úthlaup markvarðarins André Onana endaði með því að hann skall á Sasa Kalajdzic sem féll til jarðar.
Hins vegar var ekkert dæmt og Hooper var ekki sendur sjálfur í skjáinn góða til að skoða atvikið. Jon Moss, yfirmaður hjá samtökum atvinnudómara á Englandi, PGMOL, hefur þó beðið Gary O'Neil, þjálfara Wolves, afsökunar og segir að ákvörðunin hafi verið röng. Réttast hefði verið að dæma vítaspyrnu.
Enska úrvalsdeildin hefur nú birt lista yfir dómara á leikjum deildarinnar næstu helgi og þar má sjá að nöfn þremenninganna er hvergi að finna. Í umfjöllun BBC um málið kemur þó fram að Hooper, Salisbury og West hafi einfaldlega ekki verið valdir í verkefni næstu helgar frekar en að þeim hafi ekki verið hent út í kuldann.
Þó er ákvörðunin um að velja þá ekki á leik í umferðinni tekin í kjölfar mistakanna og er hún afleiðing af þeim í samræmi við kröfur Howards Webb, yfirmanns PGMOL, um aukna ábyrgð á mistökum.