Leik liðanna í Kaupmannahöfn lauk með 1-1 jafntefli og því ljóst að sigurvegari kvöldsins færi áfram í lokaumferð forkeppni Meistaradeildarinnar. Segja má að gestirnir frá Danmörku hafi fengið sannkallaða draumabyrjun en Jordan Larsson skoraði strax á fyrstu mínútu leiksins, reyndist það eina mark fyrri hálfleiks.
Foran efter 1 5 sekunder!
— F.C. København (@FCKobenhavn) August 15, 2023
Pause i Prag
: @gastisz #fcklive #ucl pic.twitter.com/WlNn8rVZDd
Heimamenn jöfnuðu metin eftir rúmlega tíu mínútna leik í síðari hálfleik en það var dæmt af vegna brots. Áfram sótti Prag og á endanum komu heimamenn boltanum í netið. Það gerði Veljko Birmancevic þegar tíu mínútur lifðu leiks og þar sem fleiri mörk voru ekki skoruð þurfti að framlengja.
Framlengingar eru vanalega ekki skemmtilegar en fjögur mörk voru skoruð í þessari. Qazim Laci og Victor Olatunji komu heimamönnum tvívegis yfir en í bæði skiptin jafnaði varamaðurinn Viktor Claesson og staðan 3-3 þegar flautað var til loka framlengingarinnar.
Því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni en þar reyndust gestirnir sterkari aðilinn þar sem þeir skoruðu úr fjórum spyrnum á meðan tvær fóru forgörðum hjá Spörtu Prag. FCK er því komið áfram í næstu umferð þar sem Raków Częstochowa frá Póllandi bíður. Sigurvegarinn úr því einvígi fer í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu á meðan liðið sem tapar fer í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.
Orri Steinn kom inn skömmu eftir að Sparta Prag komst í 3-2. Lék íslenski framherjinn tæpan stundarfjórðung í kvöld. Hann tók ekki vítaspyrnu í vítaspyrnukeppninni.
Meistaradeildarævintýri Klaksvíkur á enda
Eftir ævintýralega framgöngu í Meistaradeild Evrópu þá er KÍ Klaksvík frá Færeyjum úr leik. Liðið tapaði 2-0 gegn Molde í Noregi eftir að fyrri leik liðanna í Færeyjum lauk með 2-1 sigri KÍ. Klaksvík fer því í einvígi um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar en liðið hefur nú þegar tryggt sér sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu.