Það var John McGinn sem kom heimamönnum yfir með marki á 18. mínútu leiksins eftir stoðsendingu frá Leon Bailey áður en Douglas Luiz bætti öðru marki liðsins við sex mínútum síðar. Luiz skoraði þá á miklu öryggi af vítapunktinum eftir að Jordan Pickford braut á Ollie Watkins innan vítateigs.
Leon Bailey bætti svo þriðja marki Aston Villa við snemma í síðari hálfleik áður en varamaðurinn Jhon Duran rak síðasta naglann í kistu gestanna á 75. mínútu með sinni fyrstu snertingu í leiknum.
Niðurstaðan því öruggur 4-0 sigur Aston Villa sem nú er með þrjú stig eftir fyrstu tvær umferðir úrvalsdeildarinnar, en Everton er enn án stiga.