Sport

„Skil ekki af hverju það hafa ekki verið fleiri konur“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Arna hefur verið leikmaður með liðinu í mörg ár en nú færir hún sig alfarið yfir í þjálfun.
Arna hefur verið leikmaður með liðinu í mörg ár en nú færir hún sig alfarið yfir í þjálfun. mynd/ka.is

Arna Valgerður Erlingsdóttir mun stýra KA/Þór í Olís-deild kvenna í vetur. Hún segir að fram undan sé ákveðinn uppbyggingarfasi hjá liðinu.

Andri Snær Stefánsson hætti með liðið eftir síðasta tímabil en hann gerði KA/Þór að Íslandsmeisturum árið 2021.

Arna Valgerður hefur verið leikmaður liðsins en einbeitir sér nú að þjálfun. Hún hefur þjálfað marga leikmenn frá því þær voru börn.

„Þetta leggst mjög vel í mig, náttúrlega eru þetta mín fyrstu skref sem meistaraflokksþjálfari en ég hef alveg verið að þjálfa lengi, yngri flokka og þannig,“ segir og bætir við að hún sé blanda af rólegum þjálfara sem getur einnig æst sig á hliðarlínunni.

„Ég get alveg æst mig þegar þess þarf en ég kann ekkert sérstaklega við það þegar verið er að hrauna yfir fólk. Ég hef alveg sterkar skoðanir og læt alveg í mér heyra.“

Hún segir að gaman sé að fylgjast með fleiri konum í þjálfarastarfinu í handboltadeildunum hér á landi.

„Ég er bara mjög ánægð með þróunina sem er í gangi núna. Það hafa aldrei verið fleiri kvenþjálfarar í deildinni og þannig það er mjög jákvætt. Ég skil ekki af hverju það hafa ekki verið fleiri konur,“ segir Arna en reynsluboltarnir Rut Jónsdóttir og Unnur Ómarsdóttir eru báðar barnshafandi og óljóst hvort þær taki eitthvað þátt á þessu tímabili.

Hér að neðan má sjá viðtalið við Örnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×