Veður

Regn­svæðið farið austur

Árni Sæberg skrifar
Það á að haldast þurrt í dag á vestanverðu landinu eftir úrhelli gærdagsins.
Það á að haldast þurrt í dag á vestanverðu landinu eftir úrhelli gærdagsins. Vísir/Vilhelm

Regnsvæðið, sem fór austur yfir landið í gærdag og nótt, er í morgunsárið komið yfir Austurland, en heldur síðan áfram austur á bóginn og rofar þá til.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að fremur hæg suðvestlæg átt og bjart með köflum verði eftir hádegi, en skúrir á stöku stað. 

Milt veður og hiti jafnvel að átján stigum þegar best lætur. Vaxandi lægðardrag við Hvarf nálgist landið og verði að smálægð í nótt, en þá rigni sunnantil og fram eftir mánudeginum. 

Það snúist síðan í norðvestlægari átt og stytti upp. Hæg norðanátt og skýjað með köflum fyrir norðan, en skúrir á víð og dreif. Útlit fyrir aðgerðalítið veður á þriðjudag, úrkomulaust að mestu og milt.

Veðurhorfur næstu daga

Á mánudag:

Norðlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s og dálítil rigning með köflum, en samfelld rigning um tíma sunnantil. Hiti 10 til 16 stig.

Á þriðjudag:

Hæg breytileg átt, en norðaustan 5-10 m/s við norðausturströndina. Bjart með köflum, en smá skúrir á Suðausturlandi. Hiti 9 til 17 stig, hlýjast syðra.

Á miðvikudag og fimmtudag:

Hægviðri og víða smá skúrir, en að mestu þurrt vestanlands. Kólnar heldur í veðri.

Á föstudag:

Útlit fyrir vaxandi sunnanátt með rigningu vestantil, en hægara og þurrt eystra. Hlýnandi veður.

Á laugardag:

Útlit fyrir ákveðna sunnanátt með rigningu og hlýindum, en þurrt að mestu norðaustantil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×