Fótbolti

UEFA muni ekki inn­leiða „fá­rán­legan“ upp­bótar­tíma ensku úr­vals­deildarinnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Enska úrvalsdeildin hefur boðið upp á langan uppbótartíma í upphafi tímabils.
Enska úrvalsdeildin hefur boðið upp á langan uppbótartíma í upphafi tímabils. Vísir/Getty

Zvonimir Boban, yfirmaður knattspyrnumála hjá evrópska knattspyrnusambandinu UEFA, segir að nýr og lengri uppbótartími sem tekinn var upp í ensku úrvalsdeildinni fyrir tímabilið sé „fáránlegur“ og að hann verði ekki notaður í keppnum á vegum sambandsins.

Enska dómarasambandið PGMOL ákvað fyrir tímabilið að notast við lengri uppbótartíma í leikjum ensku úrvalsdeildarinnar til að reyna að koma í veg fyrir tímasóun og halda betur utan um þann tíma sem fer til spillis þegar mörkum er fagnað, skiptingar eru gerðar og meiðsli eiga sér stað.

Uppbótartíminn sem nú er notast við á Englandi er ekki ósvipaður þeim og var á HM í Katar í lok síðasta árs.

Einhverjir leikmenn hafa þó kvartað yfir auknu álagi sem fylgir þessum langa uppbótartíma og Boban virðist vera sammála því.

„Þetta er algjörlega fáránlegt,“ sagði Boban. „Þegar við horfum á velferð leikmanna þá er þetta hálfgerður harmleikur því það er verið að bæta við kannski 12, 13 eða 14 mínútum.“

Leikir í ensku úrvalsdeildinni hafa margir staðið í yfir hundrað mínútur á yfirstandandi tímabili.

„Þegar þú ert búinn að spila í 60 eða 65 mínútur - og ég tala fa reynslu, sérstaklega sem miðjumaður - og þú verður þreyttur, þá eru það þessar síðustu 30 mínútur sem skipta svo miklu máli. En svo kemur bara einhver og bætir öðrum 15 mínútum við.“

„Hversu oft höfum við gagnrýnt leikjadagatalið og of mikinn fjölda leikja? Við erum ekki að hlusta á leikmenn og þjálfara. Þetta er klikkun. Þetta er of mikið og við munum ekki gera þetta. Okkar viðmið eru öðruvísi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×