Það eru fáir staðir í heiminum þar sem almenningur getur freistað þess að finna demanta úti á víðavangi en í þjóðgarðinum, sem heitir Demantagígur, gefst fólki kostur á að leita að gersemum. Leitarsvæðið er ofan á gömlu eldfjalli og jarðlögin geta verið gjöful.
Það er í raun ekki óalgengt að göngugarpar finni demanta í þjóðgarðinum, líklega finnast einn til tveir á dag, en sjaldnast ná þeir almennilegri stærð. Það gerði hann þó í þetta skipti.
Stúlkan átti sjö ára afmæli og ákvað að fara með föður sínum og ömmu í þjóðgarðinn – í tilefni dagsins. Í afmælisgjöf fékk hún risastóran demant, þann næststærsta sem fundist hefur á árinu.
„Henni varð heitt og ætlaði þess vegna að hvíla sig í stutta stund. Hún settist niður og ekki leið á löngu þar til hún kom hlaupandi og kallaði: Pabbi, pabbi, ég fann einn!“
Þetta segir faðir stúlkunnar um fundinn en feðginin fóru í kjölfarið saman í þjónustumiðstöð þjóðgarðarins, þar sem starfsmenn staðfestu að steinninn væri svo sannarlega demantur. Þjóðgarðsvörður segir demantinn einn þann fallegasta sem hún hefur séð.
Þjóðgarðurinn deilir sögu stúlkunnar á heimasíðu sinni en samkvæmt óformlegri könnun gæti verðmæti demantarins hlaupið á nokkrum milljónum króna.