Elvar, sem hefur á sínum ferli einnig spilað í atvinnumennskunni í Þýskalandi og Frakklandi, gekk til liðs við Ribe-Esbjerg árið 2022 og samdi þá við félagið til tveggja ára.
Nú er orðið ljóst að hann mun dvelja lengur hjá félaginu en það en þessi 29 ára gamli leikmaður hefur skorað 101 mark og gefið 88 stoðsendingar fyrir liðið.
„Ég er mjög ánægður með að hafa framlengt samning minn hér,“ segir Elvar í tilkynningu Ribe-Esbjerg. „Ég hef mikla trú á þessu liði sem við erum með í höndunum og tel okkur geta tekið fleiri skref í rétta átt á næstu árum. “
Í tilkynningu Ribe-Esbjerg segir jafnframt að mikli áhugi hafi verið á Elvari, bæði frá öðrum liðum í Danmörku en einnig öðrum deildum Evrópu. Félagið lýsir yfir mikilli ánægju með að hafa landað framlengingu á samningi hans.
Ribe-Esbjerg hefur farið vel af stað í dönsku úrvalsdeildinni á yfirstandandi tímabili. Að þremur umferðum loknum situr liðið í 4. sæti með fjögur stig eftir tvo sigra og eitt tap.