Leikið var á VÍS vellinum á Akureyri og það var á lokaandartökum fyrri hálfleiks sem Karen María Sigurgeirsdóttir kom heimakonum yfir.
Það var síðan á fyrstu mínútum seinni hálfleiks sem fyrirliði Þór/KA, Sandra María Jessen, tvöfaldaði forystu liðsins áður en að Agla María Albertsdóttir minnkaði muninn fyrir Blika.
Agla María var síðan aftur á ferðinni á 77. mínútu þegar að hún jafnaði metin fyrir Breiðablik og virtist stefna í að leikurinn myndi enda með jafntefli.
Una Móeiður Hlynsdóttir var hins vegar ekki á þeim buxunum, hún skoraði sigurmark leiksins fyrir Þór/KA á fyrstu mínútu uppbótatíma seinni hálfleiks. Sigur sem færði liðinu mikilvæg þrjú stig en einnig liði Vals Íslandsmeistaratitilinn.
Mörkin úr leiknum má sjá hér fyrir neðan. Þór/KA er sem stendur í 5. sæti Bestu deildarinnar með 29 stig. Breiðablik er hins vegar í 2. sæti með 34 stig en án sigurs eftir fyrstu tvær umferðirnar í úrslitakeppninni.