Enski boltinn

Segir að 89 milljóna punda maðurinn þurfi að skilja leikinn betur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mauricio Pochettino hughreystir Mykhaylo Mudryk.
Mauricio Pochettino hughreystir Mykhaylo Mudryk. getty/Robin Jones

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að leikskilningi Mykhailos Mudryk sé ábótavant.

Mudryk var í byrjunarliði Chelsea þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í gær en náði sér ekki á strik og var tekinn af velli á 63. mínútu.

Úkraínumaðurinn hefur ekki enn skorað fyrir Chelsea síðan hann var keyptur á 89 milljónir punda frá Shakhtar Donetsk í janúar. Eftir leikinn í gær sagði Pochettino að Mudryk væri enn að aðlagast ensku úrvalsdeildinni.

„Hann er að bæta sig. Hann þarf að halda áfram að læra. Leikirnir í ensku úrvalsdeildinni eru svo hraðir,“ sagði Pochettino.

„Þetta snýst um að skilja leikinn betur og vera í betri takti við liðsfélagana. Við þurfum að gefa honum tíma og réttu verkfærin til að bæta sig á tímabilinu.“

Chelsea hefur aðeins unnið einn af fyrstu fimm leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Næsti leikur liðsins er gegn Aston Villa á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×