Neymar gekk í raðir Al Hilal um miðjan ágúst frá Paris Saint-Germain og gerði tveggja ára samning við félagið.
Neymar lék sinn fyrsta deildarleik fyrir Al Hilal þegar hann kom inn á sem varamaður í 6-1 sigri á Al Riyadh í síðustu viku.
Þolinmæðin virðist ekki vera mikil hjá Neymar sem ku vera orðinn ósáttur hjá Al Hilal og vill losna við þjálfara liðsins, Jorge Jesus.
Þeim lenti saman eftir leik gegn Navbahor Namangan í Meistaradeild Asíu. Jesus gagnrýndi Neymar fyrir slæmt viðhorf á vellinum. Neymar brást ókvæða við og vill nú láta reka Jesus.
Neymar hefur aðeins spilað tvo deildarleiki með Al Hilal sem er í 2. sæti sádi-arabísku úrvalsdeildarinnar með sautján stig eftir sjö umferðir. Næsti leikur liðsins er gegn Al Shabab á föstudaginn.