Umfjöllun og viðtöl: Valur - Breiðablik 4-2 | Patrick skoraði þrennu og Valsmenn tryggðu annað sætið Þorsteinn Hjálmsson skrifar 28. september 2023 22:29 Patrick Pedersen hlóð í þrennu í kvöld. Vísir/Diego Í kvöld mætti Breiðablik heimamönnum í Val að Hlíðarenda í efri hluta Bestu deildarinnar. Var leikurinn liður í 25. umferð deildarinnar sem fram fór í heild sinni í kvöld. Var leikurinn mjög fjörugur þar sem heimamenn fóru með sigur af hólmi. Lokatölur 4-2. Leikurinn var í miklu jafnvægi fyrstu 20 mínútur leiksins þar sem bæði lið náðu að ógna. Á 21. mínútu leiksins gerði Anton Ari, markvörður Breiðablik, sig sekan um hræðileg mistök. Aron Jóhannsson kom þá með fyrirgjöf frá hægri við endalínuna sem fór í bakið á Höskuldi og boltinn skaust upp í loftið. Auðveldur bolti til að grípa virtist vera fyrir Anton Ara sem missir hins vegar boltann inn fyrir marklínuna áður en hann náði fullu valdi á knettinum. Mark dæmt og heimamenn komnir yfir. Eftir markið þjörmuðu Blikar að marki Vals. Höskuldur, fyrirliði Blika, til að mynda var nálægt því að skora beint úr hornspyrnu í tvígang. Fimm mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks jafnaði Breiðablik. Eftir stórsókn Blika endaði boltinn laus inn í miðjum teig Vals. Þar kom Anton Logi aðvífandi og lét vaða í fyrsta og söng boltinn í netinu. Leikurinn hélst hins vegar aðeins jafn í stutta stund en aðeins tveimur mínútum seinna skoraði Patrick Pedersen fyrir Val. Sveinn Sigurður í marki Vals þrumaði þá boltanum fram völlinn yfir vörn Blika og skyndilega var Patrick kominn einn í gegn og náði að klára færið áður en varnarmenn Blika náðu í skottið á honum. Staðan 2-1 í hálfleik. Líkt og í fyrri hálfleik þegar Breiðablik lenti undir þá þjörmuðu þeir að marki Vals í upphafi síðari hálfleiks. Viktor Örn skallaði til að mynda í slá Valsmarksins. Á 63. mínútu fór hins vegar boltinn í mark Vals. Viktor Karl kom þá með draumasendingu inn á teiginn þar sem Kristófer Ingi kom á ferðinni og stangaði boltann í markið af stuttu færi. Allt orðið jafnt aftur. Á 78. mínútu gerði Óskar Hrafn, þjálfari Breiðabliks, þrefalda breytingu á sínu liði. Strax í kjölfarið skoruðu heimamenn. Patrick Pedersen skoraði þá eftir frákast eftir að Anton Ari hafði varið skalla Adams Ægis. Fimm mínútum síðar fengu Valsmenn víti sem Lúkas Logi Heimisson fiskaði eftir að hafa verið aðeins örfáar sekúndur inn á vellinum. Patrick Pedersen fór á punktinn og skaut niður í vinstra hornið en Anton Ari sá við honum og varði. Patrick tókst þó að klára sína þrennu á 89. mínútu. Skoraði Daninn þá af stuttu færi eftir fyrirgjöf Tryggva Hrafns. Af hverju vann Valur? Valsmenn spiluðu vel í dag og héldu ágætlega í forystu sína með fínum varnarleik þegar Blikar herjuðu að forystu þeirra. Vissulega skoruðu Blikar tvö mörk eftir þungar sóknir en í staðinn svöruðu heimamenn með liprum sóknarleik. Hverjir stóðu upp úr? Patrick Pedersen stóð klárlega upp úr með sín þrjú mörk. Ótrúlega lunkinn og klínískur sóknarmaður sem kláraði færin sín af kostgæfni fyrir utan vítaspyrnuna í síðari hálfleik. Hlynur Freyr, Orri Sigurður og Hólmar Örn spiluðu einnig fanta fínan varnarleik fyrir heimamenn. Hvað gekk illa? Eins og oft áður í sumar var þetta ekki kvöldið hans Antons Ara í marki Blika. Fyrsta mark leiksins var ótrúlega klaufalegt þar sem hann missti hreinlega boltann inn fyrir marklínuna og kom þar með heimamönnum yfir. Hann bætt þó fyrir það með því að verja víti í seinni hálfleik sem að lokum skipti litlu máli. Hvað gerist næst? Valsmenn fá FH-inga í heimsókn á sunnudaginn klukkan 19:15 í næstsíðustu umferð deildarinnar. Klukkan 14:00 sama dag mætir Breiðablik KR á Meistaravöllum. Viktor Karl: Við þurfum bara að klára okkar Viktor Karl Einarsson, leikmaður Breiðabliks.Vísir/Vilhelm „Mér fannst frammistaðan í svona 60 mínútur mjög góð. Við byrjuðum ekki nógu vel og svo náðum við tökunum í svona 55 til 60 mínútur. Við gefum svo fjögur hrikalega ódýr mörk, fannst mér. Það er langt síðan maður hefur verið svona svekktur eftir leik held ég,“ sagði Viktor Karl Einarsson, leikmaður Breiðabliks, eftir tapið í kvöld. „Í stöðunni 2-2 fannst mér í rauninni tímaspursmál hvenær við myndum bara komast yfir. Við vorum að herja hrikalega mikið á þá og svo fá þeir upphlaup og setja tiltölulega auðvelt mark sem var mjög vont að fá á sig á þessum tímapunkti.“ Nú munar aðeins einu stigi á Breiðabliki og Stjörnunni í deildinni og þar á eftir eru FH-ingar með fjórum stigum minna en Blikar. Evrópubaráttan er því en galopin en Viktor Karl segir sína menn vera aðeins með einbeitinguna á gengi liðsins en ekki annarra liða. „Við þurfum bara að klára okkar. Þetta er í okkar höndum þannig að við þurfum bara að vinna okkar leiki. Þá er þetta Evrópusæti tryggt.“ Viktor Karl tók að lokum ekki undir þá gagnrýni að liðið væri búið að vera með einbeitinguna á Evrópuleikjum sínum sem hefur bitnað á framgöngu liðsins í Bestu deildinni. „Ég get ekki tekið undir það. Það er alltaf aðeins öðruvísi að gíra sig upp í leiki svona þegar það er allt undir og svo þegar það eru öðruvísi leikir og við komum bara hrikalega vel gíraðir inn í þennan leik og ætluðum bara að vinna. Þetta er Valur-Breiðablik og bara stórleikur og við vorum bara hrikalega gíraðir, enda fannst mér frammistaðan eftir því.“ Besta deild karla Íslenski boltinn Valur Breiðablik
Í kvöld mætti Breiðablik heimamönnum í Val að Hlíðarenda í efri hluta Bestu deildarinnar. Var leikurinn liður í 25. umferð deildarinnar sem fram fór í heild sinni í kvöld. Var leikurinn mjög fjörugur þar sem heimamenn fóru með sigur af hólmi. Lokatölur 4-2. Leikurinn var í miklu jafnvægi fyrstu 20 mínútur leiksins þar sem bæði lið náðu að ógna. Á 21. mínútu leiksins gerði Anton Ari, markvörður Breiðablik, sig sekan um hræðileg mistök. Aron Jóhannsson kom þá með fyrirgjöf frá hægri við endalínuna sem fór í bakið á Höskuldi og boltinn skaust upp í loftið. Auðveldur bolti til að grípa virtist vera fyrir Anton Ara sem missir hins vegar boltann inn fyrir marklínuna áður en hann náði fullu valdi á knettinum. Mark dæmt og heimamenn komnir yfir. Eftir markið þjörmuðu Blikar að marki Vals. Höskuldur, fyrirliði Blika, til að mynda var nálægt því að skora beint úr hornspyrnu í tvígang. Fimm mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks jafnaði Breiðablik. Eftir stórsókn Blika endaði boltinn laus inn í miðjum teig Vals. Þar kom Anton Logi aðvífandi og lét vaða í fyrsta og söng boltinn í netinu. Leikurinn hélst hins vegar aðeins jafn í stutta stund en aðeins tveimur mínútum seinna skoraði Patrick Pedersen fyrir Val. Sveinn Sigurður í marki Vals þrumaði þá boltanum fram völlinn yfir vörn Blika og skyndilega var Patrick kominn einn í gegn og náði að klára færið áður en varnarmenn Blika náðu í skottið á honum. Staðan 2-1 í hálfleik. Líkt og í fyrri hálfleik þegar Breiðablik lenti undir þá þjörmuðu þeir að marki Vals í upphafi síðari hálfleiks. Viktor Örn skallaði til að mynda í slá Valsmarksins. Á 63. mínútu fór hins vegar boltinn í mark Vals. Viktor Karl kom þá með draumasendingu inn á teiginn þar sem Kristófer Ingi kom á ferðinni og stangaði boltann í markið af stuttu færi. Allt orðið jafnt aftur. Á 78. mínútu gerði Óskar Hrafn, þjálfari Breiðabliks, þrefalda breytingu á sínu liði. Strax í kjölfarið skoruðu heimamenn. Patrick Pedersen skoraði þá eftir frákast eftir að Anton Ari hafði varið skalla Adams Ægis. Fimm mínútum síðar fengu Valsmenn víti sem Lúkas Logi Heimisson fiskaði eftir að hafa verið aðeins örfáar sekúndur inn á vellinum. Patrick Pedersen fór á punktinn og skaut niður í vinstra hornið en Anton Ari sá við honum og varði. Patrick tókst þó að klára sína þrennu á 89. mínútu. Skoraði Daninn þá af stuttu færi eftir fyrirgjöf Tryggva Hrafns. Af hverju vann Valur? Valsmenn spiluðu vel í dag og héldu ágætlega í forystu sína með fínum varnarleik þegar Blikar herjuðu að forystu þeirra. Vissulega skoruðu Blikar tvö mörk eftir þungar sóknir en í staðinn svöruðu heimamenn með liprum sóknarleik. Hverjir stóðu upp úr? Patrick Pedersen stóð klárlega upp úr með sín þrjú mörk. Ótrúlega lunkinn og klínískur sóknarmaður sem kláraði færin sín af kostgæfni fyrir utan vítaspyrnuna í síðari hálfleik. Hlynur Freyr, Orri Sigurður og Hólmar Örn spiluðu einnig fanta fínan varnarleik fyrir heimamenn. Hvað gekk illa? Eins og oft áður í sumar var þetta ekki kvöldið hans Antons Ara í marki Blika. Fyrsta mark leiksins var ótrúlega klaufalegt þar sem hann missti hreinlega boltann inn fyrir marklínuna og kom þar með heimamönnum yfir. Hann bætt þó fyrir það með því að verja víti í seinni hálfleik sem að lokum skipti litlu máli. Hvað gerist næst? Valsmenn fá FH-inga í heimsókn á sunnudaginn klukkan 19:15 í næstsíðustu umferð deildarinnar. Klukkan 14:00 sama dag mætir Breiðablik KR á Meistaravöllum. Viktor Karl: Við þurfum bara að klára okkar Viktor Karl Einarsson, leikmaður Breiðabliks.Vísir/Vilhelm „Mér fannst frammistaðan í svona 60 mínútur mjög góð. Við byrjuðum ekki nógu vel og svo náðum við tökunum í svona 55 til 60 mínútur. Við gefum svo fjögur hrikalega ódýr mörk, fannst mér. Það er langt síðan maður hefur verið svona svekktur eftir leik held ég,“ sagði Viktor Karl Einarsson, leikmaður Breiðabliks, eftir tapið í kvöld. „Í stöðunni 2-2 fannst mér í rauninni tímaspursmál hvenær við myndum bara komast yfir. Við vorum að herja hrikalega mikið á þá og svo fá þeir upphlaup og setja tiltölulega auðvelt mark sem var mjög vont að fá á sig á þessum tímapunkti.“ Nú munar aðeins einu stigi á Breiðabliki og Stjörnunni í deildinni og þar á eftir eru FH-ingar með fjórum stigum minna en Blikar. Evrópubaráttan er því en galopin en Viktor Karl segir sína menn vera aðeins með einbeitinguna á gengi liðsins en ekki annarra liða. „Við þurfum bara að klára okkar. Þetta er í okkar höndum þannig að við þurfum bara að vinna okkar leiki. Þá er þetta Evrópusæti tryggt.“ Viktor Karl tók að lokum ekki undir þá gagnrýni að liðið væri búið að vera með einbeitinguna á Evrópuleikjum sínum sem hefur bitnað á framgöngu liðsins í Bestu deildinni. „Ég get ekki tekið undir það. Það er alltaf aðeins öðruvísi að gíra sig upp í leiki svona þegar það er allt undir og svo þegar það eru öðruvísi leikir og við komum bara hrikalega vel gíraðir inn í þennan leik og ætluðum bara að vinna. Þetta er Valur-Breiðablik og bara stórleikur og við vorum bara hrikalega gíraðir, enda fannst mér frammistaðan eftir því.“
Uppgjörið: Króatía - Slóvenía 29-26 | Dagur stýrði Króötum til sigurs og sendi strákana okkar heim Handbolti
Uppgjörið: Króatía - Slóvenía 29-26 | Dagur stýrði Króötum til sigurs og sendi strákana okkar heim Handbolti