Það var hvergi slegið af í umræðunum fyrir atkvæðagreiðslu spænska þingsins í gær um hvort Alberto Feijóo, leiðtogi hægri flokksins Partido Popular, nyti stuðnings meirihluta þingheims til að mynda ríkisstjórn.
„Spilltasti forsætisráðherra í sögu Spánar“
„Þér eruð spilltasti forsætisráðherra í sögu Spánar,“ sagði Santiago Abascal, leiðtogi öfgahægriflokksins VOX í ræðu sinni, og beindi máli sínu til Pedro Sánchez, sitjandi forsætisráðherra og leiðtoga jafnaðarmanna.
Atkvæðagreiðslan leiddi í ljós það sem nær allir vissu fyrirfram, að Feijóo nýtur ekki stuðnings meirihluta þingsins þrátt fyrir að flokkur hans hafi unnið þingkosningarnar í sumar og sé nú stærsti flokkur landsins. Núna tekur Sánchez við keflinu og freistar þess að mynda samsteypustjórn með vinstra bandalaginu Sumar, með stuðningi aðskilnaðarsinna í Baskalandi og Katalóníu.
Myndun vinstri stjórnar gæti kostað fórnir
Þrátt fyrir að Sánchez sé borubrattur og staðhæfi að hann myndi stjórn á næstu dögum, þá er deginum ljósara að sú fæðing verður ekki sársauka- eða átakalaus. Hann þarf að ná samkomulagi við hægri flokk aðskilnaðarsinna í Katalóníu, Junts, sem setur fram tvær kröfur fyrir því að styðja vinstri stjórnina. Annars vegar að kosið verði aftur um sjálfstæði Katalóníu á þessu kjörtímabili, Sánchez mun ekki ganga að því og Junts mun að sætta sig við það. Hins vegar er það ófrávíkjanlega krafa Junts að öllum sakborningum sem voru ákærðir og eða fangelsaðir í tengslum við atkvæðagreiðsluna um sjálfstæði Katalóníu árið 2017 verði veitt sakaruppgjöf. Þeirri kröfu virðist Sánchez ætla að kyngja til að halda völdum og það hefur verið harðlega gagnrýnt, ekki bara af andstæðingum hans, heldur einnig innan eigin raða. Þannig hefur Felipe González, fyrsti forsætisráðherra sósíalista eftir endurreisn lýðveldisins árið 1982, sagt að slíkt samkomulag sé hreinlega brot á stjórnarskrá landsins.
Á næstu vikum kemur í ljós hvort Sánchez tekst að mynda starfhæfa ríkisstórn. Takist það ekki verður boðað til enn einna þingkosninga á Spáni í byrjun næsta árs, sem yrðu þá þær sjöttu frá árinu 2015.