Bróðir Magnúsar Kristins Magnússonar er nú á leið til Dóminíska lýðveldisins til að aðstoða við leit að Magnúsi.
Ekkert hefur spurst til Magnúsar síðan 10. september þegar hann átti flug heim til Íslands, í gegnum Frankfurt, frá Dóminíska lýðveldinu. Hann fór ekki um borð í flugið en farangur hans fannst þó á flugvellinum.
Hluti af farangrinum er á leið til landsins að sögn vinar Magnúsar sem hefur undanfarnar vikur aðstoðað fjölskyldu hans við leit og samskipti við lögregluna ytra.
Sést í mynd yfirgefa flugvöllinn
Greint var frá því á vef RÚV fyrr í dag þar sem einnig kom fram að rannsóknarlögreglumenn ríkislögreglu Dóminíska lýðveldisins hafi farið á flugvöllinn í tengslum við leitina. Þar er vísað í frétt á fréttavefnum Listin Diario þar sem segir að lögreglan hafi skoðað myndefni á flugvellinum þar sem megi sjá Magnús yfirgefa flugvöllinn og setjast um borð í bíl. Samkvæmt fréttinni er ekki vitað í hvaða átt hann hélt að því loknu.
„Það virðist vera nokkur þungi settur í þessa rannsókn,“ segir vinurinn sem ekki vill láta nafns síns getið, í samtali við fréttastofu.
Hann segir að fjölskyldan hafi samt ekki heyrt af þessari myndbandsupptöku fyrr en þarna. Hann segir íslensku lögregluna aðstoða eins og þau geta en vegna fjarlægðar sé það auðvitað erfitt.
Í frétt Listin Diario segir einnig að lögreglan hafi heimsótt hótel og spilavíti nálægt ferðamannastöðunum, Boca Chica, Juan Dolio og La Romana vegna gruns um að hann gæti dvalið þar.
Systir Rannveigar lýsti því í viðtali við Bítið á Bylgjunni um miðjan septembermánuð að fjölskyldan óttaðist að andleg veikindi Magnúsar hefðu tekið sig upp aftur á ferðalagi hans. Hann hafi glímt við andleg veikindi fyrir nokkrum árum.