Undanfarna mánuði hafa fjölmargir þekktir leikmenn gengið í raðir félaga í Sádi-Arabíu. Má þar meðal annars nefna Cristiano Ronaldo, Neymar, Sadio Mané og Karim Benzema.
Zlatan er ekki hrifinn af þessari þróun og fór ekkert leynt með það í nýlegu viðtali við Piers Morgan.
„Ég fékk líka tilboð frá Kína og Sádi-Arabíu en hvað viltu? Hvaða markmið ertu með? Sumir leikmenn þurfa að ljúka ferlinum á stóra sviðinu,“ sagði Zlatan.
„Þín þarf að vera minnst fyrir hæfileikana, ekki það sem þú þénaðir. Okkur á að vera minnst fyrir getuna. Svo ég held að þegar ákveðnir leikmenn komast á ákveðinn stað verða þeir að hætta á ákveðnum stað og það er á toppnum. Þú getur ekki farið á lægr a getustig og klárað ferilinn á annan hátt. En sumir leikmenn þurfa að þéna mikinn pening því þeir þénuðu ekki nóg á ferlinum.“
Zlatan lagði skóna á hilluna í vor eftir langan og glæsilegan feril. Síðustu ár ferilsins lék Svíinn með AC Milan. Hann átti sinn þátt í að liðið varð Ítalíumeistari í fyrra.