Körfubolti

Kol­brún stefni í að verða næsta Helena: „Sér leikinn tveimur skrefum á undan“

Aron Guðmundsson skrifar
Kolbrún María hefur stimplað sig rækilega inn í Subway deildina með nýliðum Stjörnunnar.
Kolbrún María hefur stimplað sig rækilega inn í Subway deildina með nýliðum Stjörnunnar. Vísir/Samsett mynd

Ólöf Helga Pálsdóttir, sérfræðingur Subway körfuboltakvölds, segir hina fimmtán ára gömlu Kolbrúnu Maríu Ármannsdóttur, leikmann Stjörnunnar stefna í að verða næsta Helena Sverrisdóttir okkar Íslendinga. Helena er af mörgum talin besta körfuboltakona landsins frá upphafi.

Stjörnustúlkan Kolbrún María varð um helgina yngsti leikmaðurinn í efstu deild kvenna í körfubolta til að skora 31 stig eða meira í einum og sama leiknum. Kolbrún María skoraði þá 31 stig á 32 mínútum þegar nýliðar Stjörnunnar unnu 88-70 sigur á Fjölni í þriðju umferð Subway deildar kvenna.

Fyrir leikinn í gær þá var Helena Sverrisdóttir yngsta körfuboltakonan til að skora 31 stig í einum leik í efstu deild kvenna í körfubolta.

Helena var sextán ára, átta mánaða og fjögurra daga þegar hún skoraði 31 stig fyrir Hauka á móti ÍS í nóvember 2004. Helena var einnig með 16 fráköst og 8 stoðsendingar í leiknum.

Rætt var um Kolbrúnu Maríu í nýjasta uppgjörsþætti Subway deildarinnar á Stöð 2 Sport þar sem að Ólöf Helga Pálsdóttir, sem á sínum tíma þjálfaði Kolbrúnu hjá undir 15 ára landsliði Íslands, lét í ljós sína skoðun á því hversu langt þessi hæfileikaríki leikmaður gæti náð.

Klippa: Hin 15 ára gamla Kolbrún María slær í gegn

„Ég spilaði með mömmu hennar og hef því vitað af henni lengi. Hún er hálfur Grindvíkingur og ég var sjálf alltaf að vonast eftir því að hún kæmi yfir til Grindavíkur,“ sagði Ólöf sem þjálfaði lið Grindavíkur á sínum tíma.

„Árið 2020 var hún á afreksæfingum í Grindavík og ég bauð henni þá að koma á meistaraflokksæfingu. Hún mætti og hélt í við þær þá. Ég hef alltaf talað um að hún sé næsta Helena. Hún undirstrikaði það með því að slá metið hennar núna á dögunum. Þetta er svo rosalega klár leikmaður, hún sér leikinn alltaf tveimur skrefum á undan, eins og Helena gerir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×