Innlent

Kennari á hvern nem­enda fjöru­tíu prósent dýrari á Ís­landi

Jón Þór Stefánsson skrifar
Samkvæmt svörum frá mennta- og barnamálaráðuneytinu er helsta ástæðan fyrir muninum sú að á Íslandi er minni kennsluskylda.
Samkvæmt svörum frá mennta- og barnamálaráðuneytinu er helsta ástæðan fyrir muninum sú að á Íslandi er minni kennsluskylda. Vísir/Vilhelm

Meðallaunakostnaður íslenskra grunnskólakennara á hvern nemanda er fjörutíu prósent hærri en meðaltal OECD-ríkjanna. Þetta kom fram á vef Stjórnarráðsins á dögunum sem birti tilkynningu vegna skýrslu OECD um stöðu menntunar innan ríkja stofnunarinnar.

Þar kemur jafnframt fram að 6,3 prósent af vergri landsframleiðslu Íslands fari í útgjöld vegna menntunar borið saman við 5,1 prósent hjá OECD.

Lesa má skýrslu OECD hér.

 Þá segir að útgjöld á hvern ársnema sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á mann sé svipað hérlendis, eða um 28 prósent, borið saman við meðaltal OECD, þar sem prósentan er 27.

Fjallað er um launakostnað kennara á hvern nemenda í Morgunblaðinu í dag, en þar segir að óskað hafi verið eftir skýringum hjá mennta- og barna­málaráðuneyt­inu á þessum mun milli Íslands og annara ríkja OECD.

Blaðið segist hafa fengið svör þar sem vísað væri umrædda skýrslu OECD. Bent sé á að meðallaunakostnaður grunnskólakennara sé útskýrður út frá fjórum þáttum, launum kennara, bekkjarstærð, klukkustundum sem hver kennari kennir og klukkustundum sem hver nemandi fái í kennslu.

Í svari ráðuneytisins er komist að þeirri niðurstöðu að helsta ástæðan fyrir hærri meðallaunakostnaði kennari væri vegna minni kennsluskyldu kennara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×