Álftnesingar komust fljótt yfir og héldu góðri forystu allan fyrri hálfleikinn en gestirnir úr Grindavík unnu sig vel til baka í seinni hálfleiknum og komust svo yfir þegar aðeins tvær mínútur voru eftir af leiknum.
„Hrós á Grindvíkingana, þeir kunna og vita vel hverjir þeir eru. Þeir fóru að hrifsa af okkur sóknarfráköst bara með einhverri tilfinningasemi, tóku völdin tilfinningalega á vellinum og ýttu okkur út úr því sem við vorum að gera. Þeir sóttu á okkur og sóttu sér að komast yfir.“
Kjartan segir þó sitt lið algjörlega eiga hlut í því að missa forystuna niður, þeir hafi gert mörg smávægileg mistök sem kostuðu þá næstum því leikinn í kvöld, en leiðréttu það á endanum og unnu leikinn.
„Við vorum að sama skapi miklir klaufar, vorum að kasta boltanum frá okkur, klikkuðuðum úr allavega sjö vítum í seinni hálfleik. Allskyns litlir hlutir sem fóru að gera okkur erfitt fyrir. Hrós á Grindvíkingana en við lokuðum þessum leik mjög vel, gerðum allt rétt á báðum endum undir lokin og stöndum uppi sem sigurvegarar í þessum leik.“
Þetta var annar leikur nýliða Álftaness í Subway deildinni, fyrsti leikurinn tapaðist með fimm stigum gegn Íslandsmeisturum Tindastóls. Kjartan hefur lagt ríka áherslu á varnarleik liðsins í upphafi móts og segist ánægður með frammistöðuna í fyrstu tveimur leikjunum.
„Við erum búnir að vera í mismunandi varnarafbrigðum í þessum tveimur leikjum og erum að vinna í þeim atriðum. Höfum lagt meiri áherslu á vörn en sókn, sem sést kannski pínu á okkur. Nú fáum við aðeins lengri tíma til að stilla okkur af, en heilt yfir að vera í hörkuleik gegn Stólunum og klára svo Grindavík. Tvö sterk lið með sterka leikmenn innanborðs, þannig að við erum stoltir af því að hafa landað sigrinum“ sagði Kjartan glaður í bragði að lokum.