Í morgun var greint frá því að þingflokkar ríkisstjórnarflokkanna þriggja, Framsóknar, Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna, ætluðu að funda sameiginlega á Þingvöllum í dag. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að þar verði ýmis mál rædd.
„Það er nú gaman að segja frá því að þetta er dagur sem var ákveðinn fyrir löngu síðan, löngu fyrir afsögn fjármála-og efnahagsráðherra. Þetta er vinnudagur þingflokka stjórnarflokkanna, sem er nú hefð fyrir og við erum að fara að ræða ýmis mál og þingveturinn framundan.“

Næstu skref komi í ljós á morgun
Er búið að taka einhverjar ákvarðanir um næstu skref?
„Það er nú bara þannig að það er ríkisráðsfundur á morgun og þá koma næstu skref í ljós.“
Má búast við miklum hrókeringum í ríkisstjórninni?
„Ég held það sé best að við bíðum morgundagsins til að sjá hvernig þetta endar.“
Telur þú og er það ljóst á þessu stigi að Bjarni Benediktsson fari í ráðherrastól?
„Þetta eins og ég segi kemur allt í ljós á morgun á ríkisráðsfundi. Þessi ríkisstjórnarfundur snerist nú um ýmis önnur mál, þannig að við vorum ekki að ræða þau hér.“

Segir stöðu ríkisstjórnarinnar sterka
Katrín segir að hún telji stöðu ríkisstjórnarinnar sterka þrátt fyrir atburði síðustu daga. Síðustu dagar hafi verið notaðir til að ræða verkefnin framundan.
„Við höfum auðvitað notað þessa daga til að ræða verkefnin framundan, setja þau niður með skýrari hætti. Þannig að ég tel að við stöndum bara nokkuð styrkum fótum,“ segir Katrín.
Það hefur verið gagnrýnt af stjórnarandstöðunni að þú hafir staðið ansi þétt við bakið á fjármálaráðherra í allri orrahríðinni um Íslandsbanka, hvernig myndirðu svara þeirri gagnrýni?
„Já, að sjálfsögðu og það má eiginlega segja það um ríkisstjórnina alla, að við höfum gert það. enda tel ég að við höfum fylgt ráðum, bæði okkar stofnana og þeirra sem um þessi mál höndala innan stjórnarráðsins og ég tel að þau ráð hafi verið gefin eftir bestu vitund. Þannig að ég tel að það sé nú staðan í þessu máli.“

