Eigandi Trausta er Helga Helgadóttir sem er deildarstjóri stoðþjónustu skólans. Byrjaði hún fyrst með verkefni tengdum hundum í skólum árið 2017.
„Ég vissi það algjörlega í hjarta mínu að það væri sóknarfæri þar. Það vildi svo til að við áttum góðan hund sem við höfðum trú á í svona verkefni. Ég og maðurinn minn höfum verið að vinna þetta mikið saman. Við ákváðum að byrja þarna á þessum tímapunkti og allar götur síðan hef ég verið með hund í skóla með mér svona einn til tvo daga í viku,“ segir Helga.

Hún segir Trausta mjög flottan í sínu starfi enda er hann vel þjálfaður, líkt og flestir kennarar í grunnskólum. Hann hjálpar krökkunum sem umgangast hann með margt og læra þau að umgangast dýr.
„Verkefnið heitir „Hundur í skóla - Aukin vellíðan“. Það er að þau fari að tengja það að fara í skólann við að hafa það yndislegt og gott. Þetta er bara ein leið til að auka vellíðan barna og tala inn í farsældina og farsældarlögin. Það er svona megin markmiðið,“ segir Helga.
Og krakkarnir eru afar ánægðir með Trausta. Þeim finnst voða gaman að hafa hund á vappi um stofuna og geta legið hjá honum þegar þau þurfa að einbeita sér. En hvað finnst Trausta skemmtilegast í vinnunni?
„Núna finnst honum voða gaman að fara í gengum þrautir sem hann er að upplifa að hann geti. Honum finnst það mjög skemmtilegt því hann fær líka góð verðlaun. Hann upplifir sigra og fær verðlaun, það framkallar vellíðan hjá honum,” segir Helga.