Glazer-fjölskyldan vildi ekki selja Sheik Jassim bin Hamad al-Thani United og Katarinn gafst í kjölfarið upp á að kaupa félagið. Núna er líklegasta niðurstaðan að fyrirtæki Sir Jims Ratcliffe kaupi fjórðungshlut í United.
Stuðningsmenn United eru orðnir langþreyttir á hringavitleysunni í kringum eignarhald félagsins og hafa verið háværir í mótmælum sínum gegn Glazer-fjölskyldunni.
Búist er við mótmælum á næsta heimaleik United, gegn FC Kaupmannahöfn í Meistaradeild Evrópu á þriðjudaginn í næstu viku, og óttast er að þau fari úr böndunum.
Til að það gerist ekki verður öryggisgæsla í kringum leikinn aukin til muna. Hún verður svipuð í sniðum þegar United tekur á móti Manchester City á laugardaginn í næstu viku.
United hefur byrjað tímabilið illa og tapað sex af ellefu leikjum sínum, þar af báðum í Meistaradeildinni.