Sjóður Vildarbarna er nú á sínu tuttugasta starfsári og úthlutunin í dag er sú 36. í röðinni. Alls hafa um 740 fjölskyldur notið stuðnings úr sjóðnum og yfir 3.500 manns ferðast á vegum hans.
Í tilkynningu frá Icelandair segir að í styrknum felist skemmtiferð fyrir barnið og fjölskyldu þess, og er allur kostnaður greiddur, flug, gisting, dagpeningar og aðgangseyrir að sérstökum viðburði sem barnið óskar sér. Líkt og við úthlutun styrkjanna undanfarin ár afhentu Sambíóin börnunum bíómiða.
Byggir á hugmyndum og starfi Peggy Helgason
Starfsemi Vildarbarna Icelandair byggir á hugmyndum og starfi Peggy Helgason, eiginkonu Sigurðar Helgasonar, sem lengi var forstjóri Flugleiða og stjórnarformaður Icelandair Group, en Peggy hefur um árabil unnið sem sjálfboðaliði á barnadeildum sjúkrahúsa í Reykjavík og stutt fjölskyldur fjölda veikra barna með ýmsum hætti. Vigdís Finnbogadóttir er verndari sjóðsins.
„Það er mjög ánægjulegt að taka þátt í góðum verkefnum sem þessum. Vildarbarnasjóðurinn byggir á hugmyndum og starfi Peggy Helgason iðjuþjálfa sem hefur um árabil unnið sem sjálfboðaliði á barndeildum sjúkrahúsa í Reykjavík og stutt fjölskyldur veikra barna með ýmsum hætti,“ er haft eftir Tómasi Ingasyni, framkvæmdastjóra tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair í tilkynningunni.
„Starfsemin hefur nú veitt hundruðum fjölskyldna tækifæri til að ferðast og skapa saman ógleymanlegar minningar. Við erum mjög stolt af sjóðnum og þakklát viðskiptavinum okkar fyrir þeirra framlag til þessa góða málefnis.“