„Almannavarnadeild ríkislögreglu sendi dómsmálaráðherra erindi um uppbyggingu á varnargörðum vegna hugsanlega eldsumbrota. Við tókum það í umræðu hér á fundi okkar og erum með í undirbúningi frumvarp sem veitir heimild til gerð slíkra varnargarða,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, en málið var rætt á ríkisstjórnarfundi í morgun. En næst fer málið fyrir þing.
„Það þarf lagaheimild til vegna þess að við erum ekki á hættustigi heldur viðbúnaðarstigi. Þetta þarf að fara fyrir þingið,“ segir Katrín og að lengi hafi verið unnið að málinu á sviði almannavarna, í samráði við önnur yfirvöld.
Katrín segir að varnargarðarnir verði byggðir út frá mögulegum sviðsmyndum í tengslum við vernd mikilvægra innviða. Málið verði útfært í dag í samráði við aðila sem þurfa að koma að því auk formenn flokka á Alþingi.
„Þetta er auðvitað stór aðgerð en það þarf að vega og meta alla hagsmuni saman þegar svona ákvörðun er tekin. Þetta var aðalmál okkar fundar og verður unnið áfram í samvinnu okkar dómsmálaráðherra með aðkomu fleiri ráðherra. Fjármálaráðherra, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og innviðaráðherra.“
Vilja vera betur undirbúin
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, tók undir og sagði mikilvægt að nýta öll ráð til að verja innviði.
„Við erum einhuga og sammála um að þetta er verkefni sem við þurfum að fara í. Að setja upp varnargarða í forvarnarskyni þó við séum enn á óvissustigi. Til að vera betur undirbúin og þá betur varin. Þótt þetta sé talsvert inngrip þá held ég að þetta sé ákaflega mikilvægt.“

Spurður hvort það þurfi að ganga lengra segir Sigurður Ingi að það þurfi að forgangsraða verkefnum og fylgjast með leiðbeiningum vísindamanna og almannavarna.
„Þetta er stór ákvörðun en mikilvægt að undirbúa það sem best hvernig það er gert.“
Hann segist telja flesta Íslendinga hafa skilning á því að það þurfi að ganga í þessar aðgerðir í Svartsengi.
„Ég held að allflestir Íslendingar hafi skilning á því að það þurfi að verja innviði í byggð þar sem búa um 30 þúsund íbúar,“ segir Sigurður Ingi.
Hann segir kostnað í mati, tillagan sé í hönnunarferli en gert sé ráð fyrir að kostnaður við framkvæmdir í kringum Svartsengi sé talin í milljörðum.
„En þetta er auðvitað engir fjármunir í samhengi við það tjón sem gæti orðið, sem gæti hugsanlega orðið, og ég segi hugsanlega því annars vegar hefur ekkert gerst og hins vegar þá vitum við ekki endilega hvort þetta myndi duga.“
Greint var frá því í gær að starfsmenn HS Orku væru nú að vinna við það að safna möl á vinnusvæði virkjunarinnar til að undirbúa gerð varnargarða.