Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins kallar eftir því að breytingar á greiðsluþátttöku á lyfjunum Wegovy og Saxenda, sem notuð eru til að meðhöndla offitu, verði endurskoðaðar án tafar.
Í tilkynningu segir að breytingarnar, sem tilkynnt var um í byrjun mánaðar, leiði til mismununar sjúklinga eftir efnahag og hindri heilbrigðisstarfsfólk í að veita viðeigandi meðferð í samræmi við klínískar leiðbeiningar. Lyfin séu ekki niðurgreidd fyrr en vandinn sé löngu orðinn aðkallandi.
Skilyrt við sjúklinga sem þjást af offitu
Í tilkynningu Lyfjastofnunar í upphafi mánaða var greint frá því að Lyfjastofnun hefði endurskoðað einstaklingsbundna greiðsluþátttöku fyrir lyfin Saxenda og Wegovy, í ljósi nýrra upplýsinga frá Norðurlöndunum.
Greiðsluþátttöku Saxenda var hætt en greiðsluþáttaka Wegovy skilyrt við einstaklinga sem þjást af offitu. Endurskoðun fór fram að beiðni Sjúkratrygginga Íslands en þar var bent á að lyfin hafi sömu ábendingu, virki á sama efnaskiptakerfi líkamans en að Saxenda sé töluvert dýrara en Wegovy.
Verð fyrir mánaðarskammt af Saxenda er 45.845 krónur en verð algengs styrkleika af Wegovy er 27.369 krónur, þegar um er að ræða hámarks smásöluverð með virðisaukaskatti samkvæmt lyfjaverðskrá.
Fáir geti nýtt sér lyfin með hertum skilyrðum
Í tilkynningu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í dag segir að meðferð með lyfjunum Wegovy og Saxenda geti gagnast hópi einstaklinga með sjúkdóminn offitu vel en með hertum skilyrðum fyrir greiðsluþátttöku sé ljóst að fáir geti nýtt sér meðferð með lyfjunum.
„Heilsugæslan vekur athygli á því að með því að nýta þessi lyf með réttum hætti þar sem það á við er líklegt að hægt sé að bæta heilsu fjölda einstaklinga og um leið spara samfélaginu háar upphæðir vegna heilbrigðisþjónustu við þessa einstaklinga í framtíðinni,“ segir í tilkynningunni.
Þar segir einnig að með því að takmarka niðurgreiðslu verulega sé efnaminni sjúklingum mismunað enda geta efnameiri sjúklingar eftir sem áður notað lyfin með því að greiða fyrir þau að fullu sjálfir.
„Slík mismunun gengur beint gegn réttindum sjúklinga,“ segir enn fremur og að sérfræðingar heilsugæslunnar séu tilbúnir til að aðstoða við endurskoðun greiðsluþátttökunnar.
„Offita er langvinnur efnaskiptasjúkdómur sem mikilvægt er að meðhöndla ævilangt með réttum aðferðum á mismunandi stigum sjúkdómsins til að draga úr líkum á margvíslegum áhættuþáttum og fylgisjúkdómum,“ segir að lokum.