Skoðun

Er sér­stök hæfi­leika­mótun í barna- og ung­linga­í­þróttum góð hug­mynd?

Viðar Halldórsson skrifar

Hæfileikamótun (e. talent development) er nýja tískuorðið í íþróttunum. Hugtakið vísar til íþróttaþjálfunar sem leitast við að reyna að hámarka hugsanlegan árangur einstaklinga í íþróttum með sértækri og markvissri þjálfun og umönnun. Hæfileikamótun er mjúkt og aðlaðandi hugtak sem virðist í fyrstu benda til rökréttrar leiðar til að hjálpa ungum iðkendum íþrótta að bæta eigin frammistöðu og ná árangri. Enda heyrist nú víða talað um mikilvægi þess að auka hæfileikamótun ungs íþróttafólks hér á landi. En í hverju felst slík hæfileikamótun? Og er hún æskileg í barna- og unglingastarfi íþrótta?

Hæfileikamótun í íþróttum

Hæfileikamótun felur í sér að þeir iðkendur sem eru taldir hafa meiri hæfileika en aðrir á ákveðnu sviði íþrótta eru valdir í sérstaka afrekshópa þar sem eiginleikar þeirra eru fóstraðir umfram eiginleika annarra iðkenda sem síður komast í slíka hópa. Þeir sem veljast í slíka hópa fá markvissari og einstaklingsbundnari þjálfun og fræðslu umfram aðra iðkendur sem leiðir til aukinna tækifæra þeirra til að þróa hæfileika sína og ná frekari árangri í íþróttum. Slíkar aðferðir þekkjast víða erlendis en þeim hefur síður verið beitt hér á landi. Þær raddir sem tala fyrir aukinni hæfileikamótun gerast þó sífellt háværari. Slíkar aðferðir eru þó gagnrýniverðar. Sérstaklega þegar þeim er beitt á yngri iðkendur í íþróttum.

Í fyrsta lagi, þá byggja hugmyndir um hæfileikamótun á þeirri forsendu að fáum iðkendum er hampað á kostnað fjöldans. Þátttaka í hæfileikamótun er eingöngu í boði fyrir lítinn hluta iðkenda sem veljast í sérstaka afreks- og úrtakshópa. Þannig felur hæfileikamótun í sér nokkurs konar stéttskiptingu í íþróttastarfinu þar sem lítill hópur iðkenda fær meiri tíma, þjónustu, og aðgengi að björgum til að ná lengra, heldur en mikill meirihluti iðkenda. En það skýtur skökku við að koma á slíkri stéttskiptingu í íþróttastarfi, eins og hér á landi, sem er að mestu haldið úti af sveitarfélögum á þeim forsendum að íþróttir séu mikilvægur uppeldisvettvangur fyrir allt ungt fólk, en ekki einungis fyrir fáa útvalda.

Í öðru lagi þá er val í slíka afrekshópa hvorki gagnsætt né endilega réttmætt. Hæfileikar (e. talent) eru ekki föst breyta. Það er misjafnt hvað fólk telur til hæfileika frá einum stað til annars, sem og frá einum tíma til annars. Í boltaíþróttum er til að mynda stundum lögð megináhersla á líkamlegan styrk, en á öðrum tímum á hlaupagetu, leikskilning, eða tiltekna tæknilega færni. Hæfileikar einstaklinga þurfa því að rýma við hugmyndir skipuleggjenda um hvað er talið til hæfileika hverju sinni. Því er sumum hampað en öðrum mismunað útfrá því hvaða forsendur eru fyrir matinu í það og það skiptið. Forsendur slíks mats byggja því að hluta til á tilviljunum þar sem sumir iðkendur eru heppnir að þeirra eiginleikar eru taldir til sérstakra hæfileika, en aðrir ekki. Val í hópa á forsendum hæfileikamótunar virkar svo sem hvatning (e. motivation) fyrir þá sem þangað veljast, en hefur öfug áhrif á þá iðkendur sem ekki eru valdir (e. demotivation) - sem getur dregið úr metnaði þeirra og ýtt undir undir ótímabært brottfall úr íþróttum. Þannig fer slík tilhögun að ganga gegn upprunalegum tilgangi íþróttastarfs barna og ungmenna.

Í þriðja lagi þá ræður þroskamunur (e. relative age affect), og aðstæðumunur einstaklinga (e. habitus), einnig miklu um hvaða iðkendur eru taldir hæfileikaríkir og hvaða iðkendur eru það ekki. Þeir iðkendur sem eru til að mynda bráðþroska eru mun líklegri til að vera taldir efnilegir í íþróttum og eru valdir í afrekshópa hæfileikamótunar en þeir sem eru seinni til þroska. Val í sérstaka afrekshópa á forsendum hæfileikamótunar er því fjarstæðukennt þar sem yngri iðkendur eru mislangt komnir í þroska og því ekki samanburðarhæfir að þessu leitinu. Enn fremur er fræðafólk á því að sú þekking sem þarf til að spá fyrir um hvaða börn og ungmenni munu ná langt í íþróttum á fullorðinsaldri, sé langt í frá viðunandi til að réttlæta slíka tilhögun. Bæði er reynt að velja of snemma í slíka hópa, og slíkt val er jafnan byggt á hæpnum, einhæfum og tilviljunarkenndum forsendum sem markast af líðandi stað og stund.

Í fjórða lagi þá færir þróun til frekari hæfileikamótunar barna- og ungmenna í íþróttum, hugmyndafræði íþrótta frá leik til vinnu (e. the professionalization of play). Starf hæfileikamótunar og afrekshópa byggist á formfastara skipulagi, sem og alvörugefnari og árangursmiðaðri nálgun. Það felur í sér umtalsverða skerðingu leiks og frjálsræðis í frístundastarfi barna og ungmenna – þátta sem rannsóknir sýna að eru mikilvægir fyrir fjölbreyttan þroska og áhugahvöt barna og ungmenna. Að taka leikinn úr leiknum með þessum hætti grefur undan því einstaka og verðmæta skipulagi sem hefur ríkt í íþróttum barna- og ungmenna á Íslandi – og hefur verið ein helsta forsenda þess árangurs sem Ísland hefur náð á alþjóðasviði í íþrótta og vakið heimsathygli.

Hæfileikamótun barna og ungmenna er ekki góð hugmynd

Íslenskt Ólympíugull, eða Íslandsmeistaratitill eru verðlaun sem eru of dýru verði keypt ef fórnarkostnaður þeirra er að afreksvæða íþróttir þeirra yngri. Auknar áherslur á hæfileikamótun barna og unglinga, eru skref í átt til frekari afreksvæðingar, sérhæfingar og stéttskiptingar. Það er ekki hægt að líta svo á að hæfileikamótun sé eingöngu viðbót við starfið eins og það er, heldur leiðir aukin hæfileikamótum til breytinga á forsendum barna- og unglingastarfs íþrótta. Þó að það sé mikilvægt að bæta og styrkja umgjörð metnaðarfulls og hæfileikaríks íþróttafólks sem hefur náð til þess þroska (frá ca. 15-16 ára aldri), til að mynda með frekari afreksáherslum og hæfileikamótun eldri iðkenda, þá er varasamt ef slíkar áherslur fara að snúa að þeim sem yngri eru, líkt og er að færast í vöxt hér á landi.

Sérstök hæfileikamótun í íþróttum barna og ungmenna er því ekki góð hugmynd. Við ættum mun frekar að leggja fjármagn og vinnu í að auka og styrkja almenna íþróttaþátttöku ungs fólks og bæta íþróttaupplifun þess. Sérstaklega er þörf á að virkja hópa til þátttöku sem síður iðka íþróttir, eins og innflytjendur og þá sem glíma við fötlun – svo dæmi séu tekin. Í þeim hópum liggur mikilvægur auður fyrir íþróttahreyfinguna og samfélagið allt.

Fjöldinn í íþróttastarfinu er sérstaklega mikilvægur fyrir smáþjóð eins og Ísland sem hefur ekki efni á því að horfa fram hjá þeim sem eru seinþroska og/eða þykja síður „efnileg“ eða „hæfileikarík“ í íþróttum á yngri árum. Því fleiri og fjölbreyttari iðkendur sem stunda gott og heilbrigt íþróttastarf, því meiri eru möguleikarnir fyrir Ísland á að ná árangri í íþróttum. Það þarf að stækka og styrkja grunnviðina með fjöldann að vopni, frekar en að starfið þróist í að takmarka áherslur við fáa útvalda í meiri mæli. Þannig á smáþjóð eins og Ísland meiri möguleika á að vera með á stóra sviði íþróttanna í náinni framtíð. Það er leiðin sem hentar íslensku samfélagi.

Höfundur er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og höfundur bókarinnar Sport in Iceland: How small nations achieve international success.




Skoðun

Sjá meira


×