Sport

Djokovic sagði enskum bullum að halda kjafti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Novak Djokovic lætur ekki vaða yfir sig.
Novak Djokovic lætur ekki vaða yfir sig. getty/Clive Brunskill

Novak Djokovic, fremsti tenniskappi heims, sagði hópi enskra aðdáenda að halda sér saman þegar þeir reyndu að trufla viðtal við hann eftir leik Serba og Englendinga í Davis bikarnum.

Serbar unnu leikinn, 2-0, og komust þar með í undanúrslit mótsins. Miomir Kecmanovic sigraði Jack Draper, 7-6 (7-2) 7-6 (8-6), og Djokovic lagði Cameron Norrie örugglega að velli, 6-4 6-4.

Eftir leikinn fór Djokovic í viðtal en áður en það hófst reyndu enskir aðdáendur að trufla efsta mann heimslistans. Djokovic tók því ekki þegjandi og hljóðalaust og sagði bullunum einfaldlega að halda kjafti.

„Þið ættuð að læra að sýna smá virðingu,“ sagði Djokovic sem sendi enskum aðdáanda fingurkoss á meðan leiknum gegn Norrie stóð og var með annars konar látbragð.

„Það er eðlilegt að aðdáendur fari stundum yfir strikið og í hita augnabliksins bregstu líka við til að sýna að þú líðir ekki svona framkomu. Þeir geta gert það sem þeir vilja en ég svara fyrir mig. Ég var að reyna að tala þegar þeir byrjuðu að berja trommur og reyndu að pirra mig allan leikinn.“

Serbar mæta Ítölum í undanúrslit Davis bikarsins á morgun. Í hinni undanúrslitarimmunni, sem er í dag, eigast Finnar og Ástralir við. Úrslitaleikurinn fer svo fram á sunnudaginn. Serbía hefur einu sinni unnið Davis bikarinn, árið 2010 með Djokovic í broddi fylkingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×