Harry og Meghan greindu frá því í viðtali við Opruh Winfrey að mögulegur húðlitur Archie, sonar þeirra, hefði verið ræddur innan konungsfjölskyldunnar eftir að þau tilkynntu að Meghan væri ólétt.
Þau hafa aldrei nefnt nein nöfn í þessu samhengi en að sögn Scobie hefur það löngum verið vitað meðal blaðamanna á Bretlandseyjum að um hafi verið að ræða Karl og Katrínu.
Hann segist hins vegar ekki hafa nefnt nöfnin í bók sinni og því vakti það furðu þegar greint var frá því að hollenska útgáfan hefði verið tekin úr dreifingu og upplaginu fargað sökum þess að Karl og Katrín væru nefnd til sögunnar.
Buckingham höll hefur neitað að tjá sig um málið.
Scobie hefur ítrekað að hann í bókinni tali hann aldrei um rasisma, heldur „ómeðvitaða fordóma“. Í hollensku útgáfunni kom fram að Meghan og Karl hefðu átt í bréfasamskiptum eftir að í ljós kom að Karl og Katrín hefðu tekið þátt í, greinilega óviðeigandi, samræðum um Archie.
Að sögn Scobie áttu Harry og Meghan enga aðkomu að ritun bókarinnar en hann hefur sagt að hann og Meghan eigi sameiginlega vini.
Vilhjálmur, prins af Wales, hefur neitað því að konungsfjölskyldan sé haldin fordómum.