Arnaldo Chamorro undirritaði viljayfirlýsinguna eftir fund hans og landbúnaðarráðherrans, Carlos Giménez, með fulltrúum Bandaríkja Kailasa. Um er að ræða skáldað ríki, sem er lýst sem endurreisn upplýsts samfélags hindúa um allan heim.
Forsvarsmaður Bandaríkja Kailasa er gúrúinn Nithyananda, sem er eftirlýstur á Indlandi, meðal annars fyrir kynferðisglæpi. Ekki er vitað hvar hann er niðurkominn.
SPH Nithyananda Paramashivam, on behalf of the United States of KAILASA extends heartfelt congratulations to the resilient and vibrant people of Barbados on this joyful occasion of their Independence Day.#Barbados #KAILASA #Nithyananda #IndependenceDay pic.twitter.com/VAfCZu1wvm
— KAILASA's PMO (@kailasa_pmo) November 30, 2023
Fyrrnefnd viljayfirlýsing varði samkomulag um mögulegan stuðning Paragvæ við Bandaríki Kailasa, viðurkenningu á sjálfstæði ríkisins og stuðning við ríkið hvað varðaði inngöngu í Sameinuðu þjóðirnar og fleiri alþjóðleg samtök.
Chamorro viðurkenndi í útvarpsviðtali að hann vissi ekki hvar ríkið væri í heiminum en hann hefði undirritað yfirlýsinguna þar sem fulltrúar Bandaríkja Kailasa hefðu boðist til að styðja Paragvæ í ýmsum málum.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fulltrúum „ríkisins“ tekst að gabba embættismenn en í febrúar tóku þeir þátt í tveimur nefndarfundum á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þá viðurkenndu yfirvöld í Newark í New Jersey að þau hefðu verið göbbuð þegar þeir undirrituðu samkomulag um að verða vinaborg Kailasa.