Mörgu skemmtilegu er varpað upp á skjáinn til að halda uppi stemningu á meðan hlé er á leik hér ytra. Kossamyndavél (e. kiss cam), emojimyndavél, dansstuð, söngur og fleira.
Tvífarar eru þá reglulega fundnir í stúkunni, hvítskeggjaður tvífari jólasveinsins fannst í gær og þá var öðrum líkt við fótboltahetjuna David Beckham í dag.
Ásmundi Einari var varpað upp í þeim tilgangi á meðan hlé var á leik Íslands og Frakkland sem nú stendur yfir. Ásmundur sat þá með Sérsveitinni, stuðningssveit Íslands, íklæddur landsliðstreyju og útnefndur tvífari frönsku fótboltastjörnunnar Eric Cantona.
Fólk getur gert upp við sjálft sig hvort líkindin eru til staðar. Og hvort leiðum sé að líkjast, hvorn veginn sem litið er á það.