PISA könnunin er umfangsmikil alþjóðleg könnun á vegum OECD á hæfni og getu 15 ára nemenda í lesskilningi, stærðfræðilæsi og náttúruvísindalæsi. Áttatíu og ein þjóð tekur þátt.
Lesskilningi íslenskra nemenda hrakar verulega. Eingöngu 60% nemenda hafa grunnfærni og hinir íslensku nemendur hafa dregist aftur úr bæði Norðurlandaþjóðunum og jafnöldrum í OECD ríkjunum.
Þónokkurn kynjamun má greina en 68% stúlkna hafa grunnfærni í lesskilningi en eingöngu 53% drengja.
Þórdís Jóna Sigurðardóttir forstjóri menntamálastofnunar kynnti niðurstöðurnar á fundi Eddu í morgun.
„Þetta er það sama sem er að gerast á öllum Norðurlöndunum. Það er bara töluvert mikið sem Norðurlöndin eru líka að fara niður þó við séum að fara örlítið neðar og líka hjá OECD löndunum þannig að það er eitthvað sem er að gerast sem á ekki bara við um okkur en þetta er líka auðvitað margt séríslenskt en af því að við sjáum til dæmis í stærðfræðilæsinu - af því við erum að skoða mismunandi tegundir læsis - að þar gengur okkur betur heldur en þegar við erum að skoða lesskilninginn sem er þá lengri texti og fær okkur til að velta fyrir okkur stöðu íslenskunnar, hvort við þurfum ekki aðeins að gefa í þar,“ segir Þórdís.
Ísland mælist undir meðaltali Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í öllum þremur flokkum. Hlutfall nemenda á Íslandi sem býr yfir grunnhæfni í stærðfræðilæsi er 66 prósent, og grunnhæfni í læsi á náttúruvísindi 64 prósent.
Ásmundur Einar Daðason barna- og menntamálaráðherra segir niðurstöðurnar ekki óvæntar því þróunin á síðastliðnum áratug hefur verið niður á við.
„Við sjáum hins vegar núna að það eru öll lönd að falla. Áhyggjuefnið er hins vegar að Ísland er að falla meira heldur en önnur lönd. Og það er áhyggjuefni og við því þurfum að bregðast við og erum að vinna umfangsmiklar breytingar á umgjörð menntakerfisins. Þar þurfa allir aðilar að koma að áfram og um leið rýna þá vinnu hvort við séum á réttri leið þar og hvort við þurfum að gera eilítið öðruvísi.“
Ásmundur segir að margt sé í farvatninu sem komi til með að bæta úr þessari stöðu.
„Breytingarnar sem við erum að vinna að og eru hluti af menntastefnu eru gríðarlega stórar. Það að stofna þjónustustofnun menntunarinnar sem samþykkt var í annarri umræðu á Alþingi í gær er risastór breyting, ný skólaþjónustulöggjöf sem er í farvatninu og í vinnslu allra aðila er risastór breyting. Matsferill og matskerfi fyrir meðal annars lestur, sem er í vinnslu hjá menntamálastofnun, er risastór breyting og svona mætti áfram telja. Það sem við þurfum að rýna er hvort þessar aðgerðir séu nægilegar, samhliða öðru, til að snúa þessari þróun við og vera viss um það og það er verkefnið fram undan.“